Verkaskipting hins opinbera og einkaaðila

Mánudaginn 14. júní 1999, kl. 16:10:54 (201)

1999-06-14 16:10:54# 124. lþ. 4.3 fundur 5. mál: #A verkaskipting hins opinbera og einkaaðila# þál., ÖS
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 124. lþ.

[16:10]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Ég er ekki alveg sammála hv. síðasta ræðumanni um að ekki hafi farið fram umræða um einkavæðingu á síðustu árum. Mér finnst sjálfum að sú umræða hafi vaxið og orðið talsvert þróttmikil á síðustu 4--5 árum, m.a. vegna þess að samtök eins og BSRB, sem hv. þm. tengist, og gerólík samtök eins og Vinnuveitendasamband Íslands hafa hvort frá sínum vængnum komið í þessa umræðu með rök og mótrök sem öll hafa verið athyglisverð.

Ég minnist þess t.d. að hv. þm. Ögmundur Jónasson kom á þing sem þáv. fjmrh., Friðrik Sophusson, hélt um hugmyndir sem lutu að einkaframkvæmd og einkavæðingu í ríkisrekstri. Hv. þm. andmælti þar mjög kröftuglega ný-sjálenskum hugmyndum fyrrv. ráðherra sem byggði á reynslu þarlendra af einkavæðingu. Ég held að það hafi verið mjög hollt að þessi umræða hafi farið fram. Ég er ekki þeirrar skoðunar eins og hv. þm. að þessi umræða sé eitthvað vanþroskuð eða vanþróuð í samfélaginu.

Það liggur kannski ekki á borðinu sátt um hvernig best væri að koma þessari stefnu fram. Mér fannst hins vegar að sú sátt gæti falist í því sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon gaf sér að yrði líklega niðurstaða þessarar umræðu. Það er sú niðurstaða sem ég get sætt mig við. Ég veit ekki hvort hv. þm. vinstri grænna gætu það. Ég er þeirrar skoðunar að það eigi að slá skjaldborg um velferðarþjónustuna.

Ég viðurkenni það fúslega, herra forseti, að ég velti á tímabili fyrir mér hvort rétt væri að fara leið einkaframkvæmda í heilbrigðisþjónustunni. Ég hef auðvitað hugað að þeim upplýsingum sem liggja fyrir um það og birtast okkur í erlendum greinum sem við rekumst stundum á í blöðum eða sjáum í ljósvakamiðlunum. Þar lá skýrt fyrir að það hefði gefist afar illa að einkavæða á sviði heilbrigðisþjónustu, sér í lagi öldrunarþjónustu, jafnvel í þeim löndum þar sem ég hefði treyst mönnum best til þess að viðhalda öllum stöðlum og hafa öll öryggisnet vel spennt, þ.e. á Norðurlöndunum. Það var alveg skelfilegt að sjá upplýsingar um það hvernig einkaframkvæmdin hafði bersýnilega mistekist fullkomlega í öldrunarþjónustu í Svíþjóð. Ég segi við sjálfan mig: Mér kemur ekki til hugar að styðja slíkt nema búið væri að sannfæra mig með einhverjum séríslenskum rökum um að þetta gengi. Reynslan til þessa sýnir að þetta gengur ekki.

Ég óttast að hér sé fram undan miklu harðari stefna í þessum efnum en hér hefur komið fram. Ég ímynda mér t.d. að orsökin fyrir því að hv. þm. Ögmundur Jónasson og fleiri þingmenn úr hans stjórnmálahreyfingu bera þessa þáltill. fram sé sú að þeir séu að spá í hin pólitísku spil og uggi að innan tíðar muni ríkisstjórnin höggva í annan knérunn en þann sem hún hefur höggvið í síðustu ár.

Það er góðra gjalda vert, finnst mér sjálfum, og tiltölulega sakleysislegt að fara í einkavæðingu á stofnunum eins og bönkum sem hvort sem er eru í bullandi samkeppni. Það er allt annar handleggur að ætla síðan að snúa sér að heilbrigðismálum. Ég óttast auðvitað að Sjálfstfl. ætli sér á þessu kjörtímabili að freista þess að hrinda í framkvæmd einkavæðingu með einhverjum hætti, við getum kallað það einkaframkvæmd, á sviði heilbrigðisþjónustunnar. Sá ótti minn stafar m.a. af því að flokkurinn lagði mikla áherslu á það í kosningabaráttunni að í hans hlut kæmi embætti heilbrrh.

[16:15]

Ég minnist líka orða hæstv. heilbrrh., Ingibjargar Pálmadóttur, sem lýsti því skýrt og skorinort yfir, væntanlega eftir einhvers konar samræður við Sjálfstfl. að hættulegt væri að Sjálfstfl. fengi það embætti í sínar hendur.

Ég er sem sagt þeirrar skoðunar eins og ég hef áður sagt í þessari umræðu að fyllilega komi til greina að marka stefnu þar sem fjármálastofnanir og stofnanir sem eru í einhvers konar samkeppnisrekstri séu einkavæddar. Það er auðvitað ekki sama hvernig það er gert en þetta er afstaða mín. Ég dreg hins vegar línuna við menntakerfið og við heilbrigðiskerfið.

Ég vek líka athygli á því, herra forseti, að það er alls ekki sama hvernig menn ráðast í einkavæðingu. Ég tel t.d. að grundvallarmistök hafi orðið á framkvæmd einkavæðingar ríkisbankanna á síðasta ári, þ.e. það liggur alveg ljóst fyrir að hæstv. ríkisstjórn, samkvæmt ráðleggingum væntanlega bankanna sjálfra, fór þá leið að selja nýtt hlutafé úr bönkunum í stað þess að selja gamla hlutaféð. Þetta varð til þess, herra forseti, að bankarnir öðluðust nýtt fjármagn og þeir gátu sjálfir tekið aukin lán erlendis sem þeir þurftu síðan að þrýsta út innan lands með gylliboðum. Þetta gerðu þeir allt til að treysta stöðu sína á markaðnum innan lands því að það liggur í loftinu að samruni er þar fram undan og bankarnir voru að slá skjaldborg um sig, þeir voru að víggirða sig, treysta stöðu sína. Þetta leiddi hins vegar til þess að þenslan í þjóðfélaginu stórjókst umfram það sem hefði þurft. Því má segja að mistök við þá stefnu sem ríkisstjórnin hélt fram varðandi einkavæðingu bankanna eigi stóran þátt í þeirri þenslu sem núna er um það bil að valda ofhitnun í efnahagskerfi okkar og ekki bara innlendar stofnanir heldur erlendar líka hafa varað við.

Ég nefni þetta hér, herra forseti, til að það komi skýrt fram af minni hálfu að ekki er sama hvernig menn ráðast í einkavæðingu. Þó að ég sé þeirrar skoðunar að í lagi sé að ráðast í einkavæðingu þessara bankastofnana sem núna eru á markaði, sem er ekki hægt að skilgreina öðruvísi en sem samkeppnismarkað, þá geta mistök við þá framkvæmd orðið til þess að vegið sé að rótum þess merka stöðugleika sem okkur er svo eftirsóknarverður.

Sömuleiðis held ég að áður en menn ráðast í frekari framkvæmdir á sviði hlutafélagavæðingar og einkavæðingar ýmissa ríkisfyrirtækja, eins og þeirra sem ég nefndi í fyrri ræðum mínum og tengjast framleiðslu og dreifingu á raforku, þá þurfi menn auðvitað að velta fyrir sér hvernig það tengist byggðastefnu og þeirri byggð sem við viljum halda í landinu. Það er alveg ljóst að ákveðin skekkja er í því dæmi sem hið opinbera hefur borið. Það kostar mikið að halda uppi raforkukerfi og ef hinar dreifðu byggðir eiga að fara að bera það sjálfar þá er alveg ljóst að við erum búin að auka verulega á það mikla misvægi sem þegar er fyrir hendi. Þetta er ein af þeim spurningum sem menn þurfa að skilgreina og finna svör við áður en þeir ráðast í þessar framkvæmdir. Þess vegna get ég að ýmsu leyti tekið undir það með hv. þm. Ögmundi Jónassyni að við þurfum að hugsa öll þessi skref. Það undrar mig hins vegar að hann skuli ekki með skeleggari hætti hafa dregið inn í umræðuna sjónarmið hinna dreifðu byggða vegna þess að í þeirri einkavæðingu sem ég held að sé fram undan á sviði, eigum við að segja ríkisfyrirtækja og tek þá út fyrir sviga velferðarstofnanir, þá held ég að nokkrar hættur séu fram undan sem menn þurfi að velta verulega fyrir sér, vega og meta út frá því sem virðist vera mikil eining um í þessum sölum, sem er að gera ekkert sem getur enn aukið skekkju landsbyggðarinnar andspænis Stór-Reykjavíkursvæðinu.