Verkaskipting hins opinbera og einkaaðila

Mánudaginn 14. júní 1999, kl. 16:19:09 (202)

1999-06-14 16:19:09# 124. lþ. 4.3 fundur 5. mál: #A verkaskipting hins opinbera og einkaaðila# þál., Flm. ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 124. lþ.

[16:19]

Flm. (Ögmundur Jónasson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni fyrir margt gott sem fram kom í máli hans og ég er honum sammála um margt, t.d. um það að að sjálfsögðu eigum við að virkja markaðslögmálin þar sem það á við í samkeppni í framleiðslu. Ég hef t.d. aldrei gagnrýnt það að SR-mjöl skuli hafa verið selt eða Áburðarverksmiðjan þess vegna. Ég hef ekki tekið neina slíka afstöðu. Ég hef gagnrýnt á hvaða forsendum þetta var gert. Það er það sem ég hef verið að gagnrýna.

Varðandi samkeppnina, þá er það svo að stundum er mjög erfitt að draga mjög skýrar línur. Á liðnum árum hefur það verið að gerast að fyrirtækin hafa mörg verið að fara inn á svið almannaþjónustunnar og skilgreina hana síðan á grundvelli samkeppninnar. Ég tek sem dæmi lyfjabúð á Borgarspítalanum sem var til hagsbóta fyrir sjúklinga og var rekin af spítalanum en var skyndilega komin inn í samkeppni og þurfti að aðgreina hana frá sjúkrahúsinu. Þannig mætti nefna fleiri dæmi sem sýna að línurnar eru ekki alltaf skýrar hvað þetta snertir.

En ég er sammála hv. þm. um að að sjálfsögðu eigum við að virkja markaðslögmálin og það er ekki keppikefli af minni hálfu að halda framleiðslu- eða þjónustufyrirtækjum í eigu ríkisins ef hægt er að virkja þau á markaði, alls ekki.

Varðandi bankana hins vegar koma önnur sjónarmið líka til sögunnar. Ég hef verið því fylgjandi að til staðar sé í landinu einn öflugur þjóðbanki. Þetta er líka spurning um völd í þjóðfélaginu og að fulltrúar sem víðast að úr samfélaginu komi að því að stýra fjármálalífi þjóðarinnar en séu ekki allir úr einum og sama flokknum, Sjálfstfl., eins og gerist þegar búið er að markaðsvæða og einkavæða þessar stofnanir.