Verkaskipting hins opinbera og einkaaðila

Mánudaginn 14. júní 1999, kl. 16:25:58 (205)

1999-06-14 16:25:58# 124. lþ. 4.3 fundur 5. mál: #A verkaskipting hins opinbera og einkaaðila# þál., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 124. lþ.

[16:25]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Deilur hafa staðið síðustu árin um einkavæðingu. Þær hafa orðið fyrir atbeina andstæðra vængja í stjórnmálunum, Vinnuveitendasambands Íslands og Bandalags starfsmanna ríkis og bæja. Það er alltaf fyrir atbeina pólitískra átaka eða deilna sem hugmyndasköpun fleygir fram og mér finnst hún eiga sér stað í þessari umræðu.

Ég er þeirrar skoðunar að þau viðhorf sem fram hafa komið hjá hv. þm. Ögmundi Jónassyni séu önnur en ég hafði þóst greina hjá honum fyrir nokkrum árum og sannarlega eru viðhorf mín líka önnur. Það er ekkert óeðlilegt við það. Menn eru að vegast á með rökum og menn sjá kosti og galla. Ég get talið upp ákveðna kosti við einkavæðingu en það eru líka ákveðnir gallar.

Við höfum t.d. verið að velta fyrir okkur áhrifum hennar á byggðastefnuna. Fyrir liggur að það kostar tiltekið fjármagn að halda uppi þeirri sömu þjónustu t.d. á sviði raforkudreifingar og mögulega á sviði fjarskipta við landsbyggðina. Er eitthvað að því þó að sá kostnaður komi einfaldlega upp á yfirborðið og hið opinbera, ríkið, einfaldlega í krafti þeirrar stefnu sem það hefur sett fram um jafnvægi í byggð landsins, taki að sér að axla það? Er eitthvað að því? Sumir mundu telja að það væri óæskilegt vegna þess að það byggi til úr landsbyggðinni einhvers konar þurfalinga eða ölmusufólk. Ég er alls ekki þeirrar skoðunar. Ég er þeirrar skoðunar að langbest sé að hafa þetta uppi á borðinu og þannig sé best að heyja umræðuna og vega og meta hvernig við ætlum að fara í þessi mál. Þetta er eitt af því sem tengist umræðunni og það getur vel verið að hv. þm. takist að sannfæra mig um að ég hafi hér á röngu að standa en í bili er hugsun mín svona.