Mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar

Mánudaginn 14. júní 1999, kl. 16:57:33 (213)

1999-06-14 16:57:33# 124. lþ. 4.4 fundur 3. mál: #A mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar# þál., ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 124. lþ.

[16:57]

Þuríður Backman:

Hæstv. forseti. Stórframkvæmdir í raforkumálum ráðast af væntanlegri nýtingu orkunnar. Fyrirhuguð Fljótsdalsvirkjun er tengd áætlunum um stóriðju á Reyðarfirði og því er erfitt að slíta þessi tvö mál í sundur.

Versnandi staða Austurlandskjördæmis og fólksfækkun undanfarin ár hefur haft lamandi áhrif á fólk í heilu byggðarlögunum og því eðlilegt að bæði sveitarstjórnir og fjölmargir íbúar fjórðungsins bindi voni vonir við að sú stóriðja, sem verið hefur á næsta leiti í mörg ár, komi nú til framkvæmda. Að mínu mati hafa væntingar fólks um framkvæmdir í tengslum við stóriðju og virkjanaframkvæmdir dregið úr áhuga og frumkvæði margra til atvinnusköpunar á öðrum sviðum.

Ég nefni þetta þar sem tímabundinn hagnaður virðist hafa mikil áhrif þegar kannaður er vilji Austfirðinga til stóriðjunnar. Könnun sem gerð var til að kanna hug Austfirðinga til Fljótsdalsvirkjunar var þannig orðuð að niðurstaðan er vart marktæk og því ekki hægt að vitna til hennar um hug fólks til fyrirhugaðra virkjana.

Ákvörðun um Fljótsdalsvirkjun var tekin 1981. Á þeim tveim áratugum sem liðnir eru frá því að leyfið um að reisa og reka virkjun Jökulsár í Fljótsdal var veitt hefur margt breyst. Þá ríkti það viðhorf að velja yrði á milli Þjórsárvera og Eyjabakka út frá vistfræðilegu mati. Í dag er viðhorf manna og stofnana breytt á mörgum sviðum varðandi gildi náttúrunnar sem slíkrar.

Við eigum í okkar litla landi stærstu ósnortnu víðerni og jökla í Evrópu. Áður var litið á hálendi Íslands sem gróðurvana auðnir og illa fallið til búsetu og því lítils virði nema til sumarbeitar á nokkrum gróðurlöndum. Í dag draga þessar sömu auðnir hingað þúsundir ferðamanna og skapa tekjur fyrir ríkissjóð. Ferðaþjónusta er að verða einn öflugasti atvinnuvegur þjóðarinnar, bæði hvað varðar fjölda þeirra sem vinna við hana og umsvif greinarinnar.

[17:00]

Þessa þróun sáu fáir fyrir fyrir tveimur áratugum síðan. Við erum oft svo ótrúlega skammsýn og látum stundarhagsmuni trufla okkur við að sjá fleiri möguleika en þá sem við þekkjum fyrir.

Sú staða sem nú virðist uppi með fjármögnun nýrrar stóriðju á Reyðarfirði, þ.e. að Norsk Hydro ætli ekki að eiga meiri hluta í væntanlegri álverksmiðju, gefur okkur frekari tækifæri til að stöðva stórvirkjunarframkvæmdir, fylgja nútímavinnubrögðum og setja Fljótsdalsvirkjun í lögformlegt umhverfismat.

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar kemur fram, eins og áður var getið, að nauðsynlegt sé að skapa sátt milli skynsamlegrar nýtingar auðlinda og náttúruverndarsjónarmiða á grundvelli sjálfbærrar þróunar með hliðsjón af hagsmunum komandi kynslóða. Í þessum anda er tillagan um að Fljótsdalsvirkjun fari í lögformlegt umhverfismat lögð fram. Án lögformlegs mats næst aldrei sú sátt sem stefnt er að. Hér er of mikið í húfi, miklu meira en uppistöðulón á Eyjabökkum.

Það er rétt að rannsóknir eru í gangi og unnið að þeim samkvæmt áætlun. En þær rannsóknir nýtast okkur til virkjanaframkvæmda á svæðinu þó að niðurstaðan úr umhverfismati mundi leiða til þess að hætt yrði við að mynda uppistöðulón á Eyjabökkum. Þeim fjármunum væri því ekki kastað á glæ. Munurinn á því mati, sem Landsvirkjun vinnur að, og lögformlegu mati felst í rétti almennings til að koma með athugasemdir. Ég undraðist ummæli hv. þm. Arnbjargar Sveinsdóttur að nefna það eingöngu, þ.e. athugasemdir og ummæli almennings og sveitarstjórna, sem hugsanlega töf á framkvæmdum. Mér sveið að heyra hana segja þetta. Hvar er þá lýðræðið? Það að geta komið með athugasemdir, ábendingar, er tæki til leiðbeiningar fyrir okkur um framkvæmdina.

Auk núverandi gilda, sem liggja fyrir í umhverfismati, þarf að koma inn mati á huglægum og tilfinningalegum gildum. Þau gildi eiga jafnmikinn rétt á sér eins og þau gildi sem við notum í dag, niðurstöður um mikilvægi einstakra þátta eins og sérstöðu náttúrunnar, dýrategunda og gróðurtegunda. Það eru fleiri gildi sem vega þungt.

Því skora ég á þingmenn að skoða tillöguna með opnum huga og stuðla að nútímalegum vinnubrögðum með framtíðarsýn barna okkar í huga.