Mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar

Mánudaginn 14. júní 1999, kl. 17:12:54 (218)

1999-06-14 17:12:54# 124. lþ. 4.4 fundur 3. mál: #A mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar# þál., Flm. KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 124. lþ.

[17:12]

Flm. (Kolbrún Halldórsdóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka orð síðasta ræðumanns, hv. þm. Katrínar Fjeldsted, og benda hæstv. ríkisstjórn á, sem talar hátt um sátt í þessum málum, að það ríkir ekki sátt í hennar eigin herbúðum. Í þeim töluðu orðum gengur hjá mér formaður umhvn., hv. þm. Ólafur Örn Haraldsson, sem nýverið hefur gefið yfirlýsingar í fjölmiðlum um að hann telji að Fljótsdalsvirkjun eigi að fara í lögformlegt umhverfismat.

Ég tel báða þessa hv. þm. eiga að gefa ríkisstjórninni vísbendingu um að hæstv. ríkisstjórn þurfi að opna betur eyrun, ef ekki út á við þá í öllu falli inn á við.

Mig langar til að leiðrétta eitt örlítið atriði sem kom fram í máli hv. þm. Katrínar Fjeldsted varðandi myndbandið sem þingmenn fengu sent hér á síðasta þingi. Það var ekki Guðmundur Páll Ólafsson sem gerði það heldur Páll Steingrímsson. En það er jafngott fyrir það.