Mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar

Mánudaginn 14. júní 1999, kl. 17:14:28 (219)

1999-06-14 17:14:28# 124. lþ. 4.4 fundur 3. mál: #A mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar# þál., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 124. lþ.

[17:14]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég vil einungis vekja athygli þingheims á þeim sögulegu tíðindum sem hér hafa gerst. Myndast hefur meiri hluti innan hv. umhvn. með því fram fari lögformlegt umhverfismat á Fljótsdalsvirkjun. Fyrir liggur að hv. þm. Ólafur Örn Haraldsson, formaður nefndarinnar, hefur gefið yfirlýsingu um það í fjölmiðlum að hann styðji slíkt mat. Sá sem hér stendur gerir það líka og hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir, sem er þingmaður Samfylkingarinnar í nefndinni. Nú hefur komið fram að hv. þm. Katrín Fjeldsted styður þetta einnig. Auðvitað liggur fyrir að hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir, flm. tillögunnar, er þessu sammála. Þar með er ljóst, herra forseti, að allar forsendur eru fyrir því að afgreiða á þessu þingi frá umhvn. tillöguna sem hér er til umræðu, um að ekki verði ráðist í Fljótsdalsvirkjun nema að undangengnu lögformlegu umhverfismati. Þetta er mikill sigur fyrir umhverfisverndarsinna innan þings sem utan og þetta sýnir fram á að umhverfismál eru loks að ná þeirri stöðu í samfélaginu að vera ekki lengur bundin flokkum. Þetta er orðið almannamál og varðar alla. Þess vegna fagna ég þeim sögulegu tíðindum sem nú hafa gerst hér.