Mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar

Mánudaginn 14. júní 1999, kl. 17:28:19 (225)

1999-06-14 17:28:19# 124. lþ. 4.4 fundur 3. mál: #A mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar# þál., ArnbS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 124. lþ.

[17:28]

Arnbjörg Sveinsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson hefur skilgreint hér mjög afstöðu annarra þingflokka og farið djúpt í skilgreiningar á því hver afstaða manna er til málsins í öllum þingflokkum nema Samfylkingunni. Nú þætti mér afskaplega vænt um að fá skilgreiningu hv. þm. á því hver afstaða Samfylkingarinnar sé til málsins því að í kosningabaráttunni á Austurlandi kom mjög skýrt fram að Samfylkingin hafði ekki áhuga á því að fram færi umhverfismat á Fljótsdalsvirkjun.

Vegna þess að hér er verið að tala um skuld við kjósendur þá þætti okkur, sem áttum þess kost að taka þar þátt í mjög skemmtilegri og ágætri kosningabaráttu, gaman að fá að heyra hver afstaða Samfylkingarinnar er því að mér finnst hún vera nokkuð önnur í máli hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar en hjá ræðumönnum Samfylkingarinnar í kosningabaráttunni á Austurlandi nú fyrir mjög skömmu síðan.