Mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar

Mánudaginn 14. júní 1999, kl. 17:34:55 (230)

1999-06-14 17:34:55# 124. lþ. 4.4 fundur 3. mál: #A mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar# þál., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 124. lþ.

[17:34]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Hvað var það sem hæstv. umhvrh. var að segja? Að ríkisstjórnin ætlaði sér að virkja og hún styddi það.

Herra forseti. Málið snýst ekki um það. Þessi tillaga snýst ekki um hvort eigi að virkja eða ekki. Hún snýst um það að fólkið í landinu fái að njóta lýðræðislegs réttar síns til að segja skoðun sína á málinu og koma athugasemdum sínum á framfæri við stjórnsýsluna. Hún snýst um það að ráðist verði í lögformlegt umhverfismat og það var það sem ég var að inna hæstv. umhvrh. eftir.

Ég get ekki skilið hvert svar hennar var. En getur verið, herra forseti, að hún ætli að lýsa því yfir að hún ætli jafnvel að ganga lengra en hæstv. iðnrh. hefur gert og lýsa því yfir skýrt og skorinort að hún sé á móti því að farið verði í lögformlegt umhverfismat?

Hæstv. iðnrh. talaði þannig fyrir síðustu jól að til greina gæti komið að virkjunin yrði sett í lögformlegt umhverfismat og þá væru í gangi rannsóknir sem mundu nýtast að fullu varðandi það. Orð hans í nóvember eða desember sl. var ekki hægt að skilja á annan hátt.

Ég spyr, herra forseti: Hver er afstaða hæstv. umhvrh. til að Fljótsdalsvirkjun fari í lögformlegt umhverfismat? Getur verið að yngsti ráðherrann, sá sem margir hafa bundið mestar vonir við að hefði kjark og dirfsku til að taka sínar eigin ákvarðanir í erfiðum málum eins og þessu, ætli að láta það verða sinn fyrsta gerning sem umhvrh. að fótumtroða vilja fólksins?

Ég trúi því ekki, herra forseti. Getur verið að það sé fórnarkostnaður sem þurfti að greiða fyrir stólinn?