Mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar

Mánudaginn 14. júní 1999, kl. 17:45:30 (234)

1999-06-14 17:45:30# 124. lþ. 4.4 fundur 3. mál: #A mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Fljótsdalsvirkjunar# þál., Flm. KolH
[prenta uppsett í dálka] 4. fundur, 124. lþ.

[17:45]

Flm. (Kolbrún Halldórsdóttir):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hjartanlega fyrir þátttökuna í þessum umræðum. Sérstaklega ber að þakka hv. 7. þm. Reykvíkinga fyrir að benda okkur á að nú hafi skapast meiri hluti í umhvn. fyrir því að samþykkja þáltill. sem hér er til umræðu.

En mig langar til að benda á örfáa hluti sem fram hafa komið í umræðunni. Kannski fyrst, vegna þess að hæstv. forseti sá ástæðu til að slá í bjöllu vegna samtals í sal, er rétt að það komi fram að það var 1981 sem sett voru heimildarlög varðandi Fljótsdalsvirkjun en ekki 1983 eins og kom fram í orðum hæstv. umhvrh.

Ég verð að segja að hæstv. umhvrh. Siv Friðleifsdóttir veldur mér vonbrigðum. Orð hennar hér finnst mér benda til þess að ráðuneyti hennar sé kannski eftir allt skúffuráðuneyti og að a.m.k. önnur hönd hæstv. ráðherra sé komin ofan í þá skúffu sem hæstv. iðnrh. skellti alltaf á putta fyrrv. umhvrh., Guðmundar Bjarnasonar. Ég hvet hæstv. umhvrh. Siv Friðleifsdóttur til að sýna það sjálfstæði sem hún hefur sjálf gefið til kynna að hún ætli að sýna og lýst yfir í fjölda viðtala síðustu daga og vikur. Ég hvet Siv Friðleifsdóttur til að endurskoða afstöðu sína hvað stefnu stjórnvalda varðar í þessu tiltekna virkjanamáli.

Ég hvet hæstv. umhvrh. Siv Friðleifsdóttur til þess að viðurkenna að það eru breyttir tímar í samfélaginu. Og ég hvet aðra hv. þm. til að gera slíkt hið sama. Þessi umræða hefur verið allt of lengi í gangi án þess að þokast nokkurn hlut. Nú höfum við öll tækifæri til þess að breyta um stefnu.

Við erum að vinna tíma. Við erum ekki að tapa tíma að mínu mati með því að setja virkjunina í lögformlegt umhverfismat. Við erum að vinna þann tíma sem náttúran þarf á að halda til að njóta vafans. Íslendingar eru aðilar að alls kyns alþjóðlegum samningum, m.a. Árósa-samningnum sem fjallar beinlínis um upplýsingaskyldu stjórnvalda.

Stjórnvöld hafa verið að undirrita fleiri samninga á síðustu árum sem gera okkur skylt að upplýsa þjóðina um áhrif þeirra stóru framkvæmda sem við erum að tala um á hálendinu. Ég hvet stjórnvöld til að fara að þeim samningum.

Mig langar líka að benda fólki á það að Evrópusambandið hefur samþykkt á sínu þingi að framkvæmdir sem hafa leyfi frá því fyrir gildistöku tilskipunar Evrópusambandsins fari í lögformlegt umhverfismat innan einhvers ákveðins frests sem ég því miður kann ekki að nefna núna. Segja ekki tilskipanir Evrópusambandsins íslenskum stjórnvöldum að breyttir tímar hafi gengið í garð hjá öllum þjóðum varðandi þessi mál? Við hlustum nú á Evrópusambandið af minna tilefni en þessu. Evrópusambandið hefur gefið út tilskipanir um að svona framkvæmdir skuli fara í lögformlegt mat jafnvel þó að leyfi sé til þess að víkja sér undan því.

Mig langar til að segja eina dæmisögu varðandi verðmætamat fólks vegna orða hv. 2. þm. Austurl., Arnbjargar Sveinsdóttur. Verðmætamat okkar er oft þannig við erum kannski ekki alveg tilbúin til að sjá að það sem næst okkur stendur sé einhvers virði.

Hvað Fljótsdalsvirkjun varðar sem hér er til umræðu þá getum við sagt sem svo að ef Austfirðingar yrðu spurðir hversu mikið þeir mundu vilja borga fyrir það að hún næði ekki fram að ganga, þ.e. að Eyjabakkar færu ekki undir uppistöðulón, þá kannski yrði upphæðin ekkert afskaplega há. Ef Reykvíkingar yrðu spurðir um það hversu mikið þeir væru til í að borga til að forða Eyjabökkum frá því að fara undir uppistöðulón þá gæti ég ímyndað mér að sú upphæð yrði hærri, þ.e. sem Reykvíkingar væru tilbúnir til að borga til þess að bjarga Eyjabökkum. Ef við spyrðum síðan fólk úti í Amsterdam eða á Ítalíu, í Róm eða guð veit hvar hversu mikið það væri tilbúið að borga til þess að stærsta víðerni Evrópu fengi áfram að vera nokkurn veginn ósnortið þá geri ég ráð fyrir að sú upphæð yrði enn þá hærri en sú sem Reykvíkingar væru til í að borga.

Ég bendi á að verðmætamat er afskaplega afstætt og ég legg til að í framtíðinni verði það ekki einungis skylda að setja svona stórar framkvæmdir í umhverfismat heldur verði hreinlega skylda að setja svona framkvæmdir í arðsemismat þar sem allt dæmið er reiknað, líka hvað náttúran kostar.

Fræðimenn víða um heim hafa fundið upp aðferðir til þess að setja verðmiða á náttúruna. Þau gögn sem þessir fræðimenn hafa skilað eru okkur aðgengileg. Við eigum alveg að geta sett þennan verðmiða á náttúruna. Við höfum ekki reiknað þetta dæmi rétt hingað til vegna þess að við höfum ekki reiknað náttúruna til verðmæta. Við höfum ekki sett á hana verðmiða. Við settum heldur ekki verðmiða á aflaheimildir á sínum tíma þegar þeim var fyrst úthlutað og við sjáum núna að við erum að súpa seyðið af því.

Gleymum því ekki að fræðilega er mjög auðvelt að setja verðmiða á náttúruna og gera arðsemismat hvað hana varðar.

Ég ítreka þakkir mínar til þeirra þingmanna sem hafa tekið þátt í þessari umræðu og endurtek þau orð mín að ég skora á Alþingi og hæstv. ríkisstjórn að sjá til þess að við bregðumst við breyttum tíðaranda og setjum Fljótsdalsvirkjun í lögformlegt umhverfismat. Ég vona svo sannarlega að spá hv. 7. þm. Reykv., sem kom hér fram áðan um hvernig umhvn. kemur til með að afgreiða þessa þáltill., sé rétt.