Stjórnarskipunarlög

Þriðjudaginn 15. júní 1999, kl. 10:46:09 (241)

1999-06-15 10:46:09# 124. lþ. 5.3 fundur 1. mál: #A stjórnarskipunarlög# frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 124. lþ.

[10:46]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hef oft sagt að fátækt fólk og öryrkjar mættu gjarnan hafa fleiri fulltrúa í þessum sal en raun ber vitni. Þeir hópar eiga allt of fáa málsvara hér á Alþingi. Því miður koma fáir málsvarar þeirra úr flokki hv. þm. Péturs Blöndals.

Ég er ekki hlynntur misvægi atkvæða. Ég bendi hins vegar á að þetta beri að skoða heildstætt, aðstöðu þjóðfélagsþegnanna, bæði hvað varðar kosningarréttinn og allt annað. Byggðarlögin eru í mismunandi aðstöðu. Það er engum blöðum um það að fletta að kjördæmi á landsbyggðinni eiga að mörgu leyti erfiðar uppdráttar gagnvart stjórnsýslunni en þau sem eru hér á suðvesturhorninu. Ég hef verið talsmaður þess að þessi mál verði skoðuð heildstætt og hef lagt til tiltekna lausn í því efni.