Stjórnarskipunarlög

Þriðjudaginn 15. júní 1999, kl. 11:07:23 (246)

1999-06-15 11:07:23# 124. lþ. 5.3 fundur 1. mál: #A stjórnarskipunarlög# frv., VS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 124. lþ.

[11:07]

Valgerður Sverrisdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að fara út í rökræður við hv. þm. en mér fannst koma fram misskilningur í máli hans, ekki síst þegar hann talaði um Framsfl. Eins og þetta er í dag þá er ekki misvægi á milli flokka og það verður heldur ekki eftir þessar breytingar. Það er því enginn flokkur sem hagnast á fyrirkomulaginu eins og það er í dag, og heldur enginn flokkur sem hagnast á því eins og það verður eftir þessa breytingu. Misvægið er á milli kjördæma.

Þegar hv. þm. segir að ekkert gott sé við þessa breytingu þá finnst mér það ekki vera alveg í samræmi við málflutning hans almennt áðan vegna þess að hann talaði um mikilvægi þess að ekkert misvægi væri í atkvæðavægi hvar sem menn byggju. Það er þó þannig að við breytinguna verður misvægið aldrei meira en 1:2. Það er því tekið mjög stórt skref í rétta átt miðað við málflutning hans og flestra hér.

Annað kom fram í máli hans sem mér fannst heldur ekki vera rétt og ekki í samræmi við staðreyndir þegar hann talar um að sex þingmenn eigi að þjóna svæðinu frá Siglufirði að Lónsheiði. Samkvæmt lögunum eru aldrei færri en sex kjördæmakjörnir í hverju kjördæmi, en hins vegar er reiknað með tíu þingmönnum í þessu kjördæmi, frá Siglufirði að Skeiðarársandi. Í dag eru þeir ellefu. Reyndar er þá Siglufjörður ekki talinn með. Breytingin í því kjördæmi sem hv. þm. nefndi sérstaklega er þó ekki meiri en svo að það nemur einum þingmanni.