Stjórnarskipunarlög

Þriðjudaginn 15. júní 1999, kl. 11:18:39 (251)

1999-06-15 11:18:39# 124. lþ. 5.3 fundur 1. mál: #A stjórnarskipunarlög# frv., KLM
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 124. lþ.

[11:18]

Kristján L. Möller:

Virðulegi forseti. Um leið og ég stíg í fyrsta skipti í þennan ágæta ræðustól hv. Alþingis vil ég láta í ljós óskir mínar til allra forseta um að samstarf við þingmenn megi verða gott, og sérstaklega kannski til aðalforsetans. Jafnframt vil ég í upphafi, þó fáir ráðherrar séu nú í salnum, óska nýjum ráðherrum velfarnaðar í starfi og hæstv. forsrh. til hamingju með þriðju ríkisstjórn sína. Ég vona að hún vinni góð verk fyrir land og þjóð. Alveg sérstaklega vil ég brýna fyrir hæstv. forsrh. að Ísland er stórt land og það býr fullt af fólki úti á landi sem mér finnst að hafi gleymst mjög oft undanfarin kjörtímabil. Ég vænti þess að hæstv. forsrh. muni fylgja eftir af miklum krafti þáltill. sem samþykkt var á síðasta þingi um ráðstafanir í byggðamálum. Fyrir því skal ég lofa honum stuðningi mínum en ég mun líka minna vel á það ef ekkert verður gert.

Frv. sem hér liggur fyrir fjallar um misvægi atkvæða og það að leiðrétta hið mikla misvægi atkvæða sem svo mikið hefur verið talað um. Þetta er hálfgert tískuyrði, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu. Ég vil taka skýrt fram að sem jafnaðarmaður er ég innilega sammála því að allir hafi sama atkvæðisrétt. Ég er með öðrum orðum samþykkur því að ganga skrefið til fulls og gera Ísland að einu kjördæmi, eins og mörg þing Alþfl. hafa samþykkt. Ég er fylgjandi fullri jöfnun atkvæða.

En ég vil líka horfa á önnur mannréttindi sem eru misvægi lífsskilyrða. Hver er ástæða þess að hið virðulega Alþingi þurfi með reglulegu millibili að taka upp stjórnarskrána og gera breytingar á þessu öllu saman? Ástæðan er m.a. sá þjóðarvandi sem er í landinu, ég segi ekki landsbyggðarvandi heldur þjóðarvandi, sem sést t.d. á því að sl. fjögur ár hafa rúmlega sjö þúsund manns flutt af landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðis. Undanfarin átta ár hafa tíu þúsund manns flutt af landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins. Það er ástæðan fyrir því að hér þarf að gera breytingar í stjórnarskrá og lagfæra þetta misvægi. Reyndin er sú að margir hafa þurft að flytja af landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðis út af ýmsu misvægi og misrétti sem landsbyggðarfólk er beitt.

Eins og ég sagði áðan eru þeir búferlaflutninga sem átt hafa sér stað ekki landsbyggðarvandi heldur þjóðarvandi. Það er þjóðarvandi að sl. átta ár hafi tíu þúsund manns flutt af landsbyggðinni og suður.

Á Hofsósi fyrir norðan er rekið mikið og myndarlegt safn, svokallað Vesturfarasafn, reist til að minnast allra þeirra fjölmörgu Íslendinga sem gáfust upp í ýmsum harðindum og fluttu til Kanada, til Vesturheims. Ég ætla rétt að vona að enginn fái það hlutverk einhvers staðar úti á landi eftir 10--20 ár að koma upp landsbyggðarsafni, safni um hvers konar líf var á hinum ýmsu stöðum á landinu hér áður en það leið undir lok.

Ástæður þessara búferlaflutninga eru margar. Mjög margar af þeim eru vegna ákvarðana ríkisstjórnar hvers tíma. Það er sannarlega misvægi í ýmsum framkvæmdum og öðru slíku á landinu. Við höfum t.d. séð að allar stórframkvæmdir eru hér á höfuðborgarsvæðinu. Þetta sogar til sín fólk. Það skyldi þó ekki vera að hluti af þessum tíu þúsundum sem flutt hafa síðustu átta ár hafi einmitt fengið störf við þær stóru og miklu verksmiðjur sem hér er verið að byggja?

Ég sagði áðan að ég væri hlynntur því að jafna misvægi atkvæða. Ég hef hins vegar þann fyrirvara á að það sé gert samhliða því að misvægi lífskjara og búsetuskilyrða verði jafnað. Ég skil íbúa höfuðborgarsvæðisins mjög vel og þá hv. þingmenn sem beita sér hvað mest fyrir því að jafna misvægi atkvæða. Ég bið þá hins vegar líka að setja sig í spor okkar sem viljum að lífskjör og búsetuskilyrði á landinu verði jöfnuð.

Ég er t.d. mjög ósáttur við misvægi námskostnaðar, misvægið á kostnaði við að senda unglinginn sinn í skóla. Ég er ekki sammála því að foreldri á Raufarhöfn þurfi að borga 350--400 þúsund fyrir að senda ungling í framhaldsskóla sem ríkið rekur, byggir og borgar kennurum laun. Á meðan þarf íbúi Reykjavíkursvæðisins nánast ekkert nema ganga yfir götuna. Þetta er misvægi lífsskilyrða.

Það eru sannarlega misvægi í lífsskilyrðum þegar íbúar í dreifðum byggðum úti á landi þurfa að borga 120--140 þús. kr. á ári fyrir þær grunnþarfir að hita húsin sín meðan íbúar hér á höfuðborgarsvæðinu eru kannski að borga 40 þúsund. Hér er meira heitt vatn og hér var þetta gert fyrr. Sumir hafa meira að segja haldið því fram að Hitaveita Reykjavíkur hafi að einhverjum hluta verið byggð fyrir einhverja Marshall-peninga. Ég ætla ekki að fullyrða um en það geta þá aðrir frætt mig um, sé það rétt. Margar hitaveitur úti á landi voru byggðar eftir að verðtryggingin komst á og þess vegna eru þær svo dýrar. Þar á meðal gera m.a. aðgerðir stjórnvalda það að verkum að húshitunarkostnaður er svona hár.

Það er sannarlega misvægi í að leita sér læknishjálpar. Menn búa ekki við sama í að sækja sér læknishjálp úti á landi borið saman við höfuðborgarsvæðið. Sjúkrahús eru rekin af ríkinu sem borgar læknum laun en það getur kostað íbúa úti á landi tugi ef ekki hundruð þúsunda að leita sér læknishjálpar.

Það er sannarlega misvægi í rekstrarskilyrðum fyrirtækja. Því er ekki saman að jafna að reka fyrirtæki úti á landi eða á höfuðborgarsvæðinu. Tökum eitt dæmi um tvær stóriðjur. Í gær var ágæt umræða um rekstrarvanda fiskvinnsluhúsa. Það eru stóriðjur í landinu. Stóriðjur höfuðborgarsvæðisins getum við kallað álverin sem hér eru. Þau njóta mikilla kjarabóta með lágu orkuverði meðan stóriðja landsbyggðarinnar, fiskvinnslan, borgar margfalt hærra verð. Ég get ímyndað mér að við stóriðju landsbyggðarinnar, fiskvinnsluna, vinni margfalt fleiri og fleiri hafi lífsafkomu sína af því að vinna við það en í þessum tveimur álverksmiðjum á höfuðborgarsvæðinu. Þannig búum við líka við misvægi rekstrarskilyrða.

Það væri kannski ekki á vandi vestur á fjörðum eða úti um land að reka fiskvinnslu ef sú stóriðja byggi við sama orkukostnað og álverin, þegar við heimsækjum álfursta úti um heim og gyllum fyrir þeim möguleikana á að koma og byggja álverksmiðjur hér á landi sem eru svo sem ágæt atvinnutækifæri líka.

Alþingi hefur einnig stuðlað að misvægi milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðisins. Tökum nýlegt dæmi, hækkun á þungskatti, sem átti sér stað á síðasta þingi. Það er sannarlega íþyngjandi aðgerð fyrir landsbyggðina. Ég þekki persónuleg dæmi af því úr eigin rekstri þar sem flutningskostnaður hækkaði um 16--60% í kjölfar breytinganna. Að vísu fylgdu með EES-breytingar um að bílstjórar mættu ekki vaka svo og svo lengi. Eitthvað þess háttar fylgdi með. Þetta er sannarlega misvægi.

Margt af því misrétti sem var í landinu hefur verið jafnað og ber að þakka fyrir. Eitt af því var er Ísland var gert að einu gjaldsvæði hvað símann varðar sem hæstv. forseti þingsins, þáv. samgrh., stuðlaði að og má eiga þakkir fyrir. Sama verð er einnig haft á bensíni, olíu og mjólkurverði að mestu leyti. Afnotagjald sjónvarps og útvarps t.d. er það sama um allt land án tillits til búsetu. Það sitja allir við sama borð.

Mönnum finnst það kannski skrýtið að ég skuli blanda þessum tveimur þáttum saman. Það er hins vegar ekki svo undarlegt vegna þess að í tillögum nefndarinnar sem vann þessar tillögur segir, með leyfi forseta, á bls. 39 í skýrslu hæstv. forsrh. til þingsins, um hliðarráðstafanir:

,,Tillögur nefndarinnar, sem byggjast á því að draga úr misvægi atkvæða milli kjördæma, munu leiða til þess að nokkur þingsæti færast frá landsbyggðarkjördæmum til þéttbýliskjördæma á suðvesturhorni landsins. Það er eðlilegt að slík breyting leiði til umræðna um vanda landsbyggðarinnar.``

Takið þið eftir: vanda landsbyggðarinnar. Það hefði nú verið huggulegra ef þarna hefði staðið ,,vanda þjóðarinnar``.

,,Hér er lagt til að samhliða þeim breytingum, sem verða á skipan kjördæma og úthlutun þingsæta, verði rætt um ýmis önnur atriði sem varða hagsmuni þeirra kjördæma og landshluta þar sem þingsætum fækkar.``

Áfram held ég, í kafla 15.1 um byggða- og félagsmál:

,,Breytingar þær, sem lagt er til að gerðar verði á skipun kjördæma og úthlutun þingsæta, gefa tilefni til að fjallað verði um hvort ástæða sé að grípa til aðgerða til að styðja og styrkja búsetu á landsbyggðinni. Í því efni má nefna samgöngu- og vegamál, til að mynda örari endurbætur á vegtengingum einstakra byggða við aðalvegakerfi landsins, fjarskiptamál, húshitunarkostnað á hinum svonefndu köldu svæðum, námskostnað vegna framhaldsnáms o.fl.

Að höfðu samráði við forsætisráðherra leggur nefndin til að fjallað verði um framangreind atriði í sérstakri nefnd um atvinnu- og efnahagsmál sem skipuð verði samkvæmt tilnefningum allra þingflokka.``

[11:30]

Ég var skipaður í þessa nefnd, sem kölluð var byggðanefnd, af þingflokki jafnaðarmanna. Þessi byggðanefnd hélt marga fundi, kallaði til sín fjölda sérfræðinga og ég held að eftir fimm fundi hafi ég setið uppi með 8 kg af skýrslum. Ég var ekki kominn í yfirvigt þegar ég flaug norður en það nálgaðist óðfluga. Það vantar því ekki skýrslurnar. Mér varð að orði einhvern tíma að við á landsbyggðinni lifum ekki á skýrslum einum saman. En það var gott starfslag í þessari nefnd hæstv. forsrh. Hún var skipuð fulltrúum allra flokka sem þá áttu fulltrúa á Alþingi.

Við skiluðum frá okkur tillögum sem við nefndum Bráðaaðgerðir, fyrstu tillögur. Þar var m.a. talað um húshitunarkostnaðinn, að taka nú hæsta og dýrasta flokkinn og færa niður í meðaltal. Lagt var til að fulljafna aðgang að framhaldsskólum með námskostnað. Lagt var til að endurgreiðslur námslána yrðu lægri hjá því fólki sem stundar framhaldsnám og þiggur lán frá lánasjóði, að endurgreiðsluhlutfall þeirra yrði lægra ef það byggi svo og svo lengi úti á landi. Þar voru tillögur í samgöngumálum. Síðasta hæstv. ríkisstjórn spilaði því út, tíu dögum fyrir kosningar eða svo, 2 milljörðum til samgöngubóta. Það virkaði á mig svipað og maður tímdi ekki að kaupa nema bland í poka fyrir fimmtíukall og henda í krakkana í aftursætinu væru þau mjög óþekk. Það var ekki stærri pakki en það.

Kjördæmin skiptu þessu niður, þingmenn síðustu skiptu þessu niður og t.d. komu 140 millj. í hlut míns kjördæmis, Norðurl. v. Einn fulltrúi stjórnarflokkanna í kosningabaráttunni kallaði þetta gulrótarnefndina. Ég áttaði mig ekki á því í byrjun að þetta væri hugsað sem einhver gulrótarnefnd og starfaði ekki í henni þannig. Ég tek hins vegar skýrt fram að verklag í þessari nefnd, sem var undir stjórn hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar, var mjög gott. Tillögurnar sem við lögðum frá okkur voru aðeins dropi í haf þess sem þarf til aukins jafnréttis í þessu landi svo eyða megi því misvægi sem er í lífskjörum og búsetuskilyrðum. Mig langar að spyrja hæstv. forsrh. hvað verði um þessar tillögur. Ég leit svo á að þær mundu strax koma til umfjöllunar, mundu strax taka gildi og þess yrði freistað að byrja á því núna. Ég beið reyndar alltaf eftir því fyrir kosningar, um leið og ég opnaði tækið fyrir fréttir í hádeginu, að eitthvað kæmi um jöfnun námskostnaðar, húshitunar eða álíka, að þessu yrði spilað hraðar út en svo varð ekki.

Ég vil spyrja hæstv. forsrh. út í þessar tillögur: Hvenær megum við vænta þess að þær taki gildi og komi að fullu til framkvæmda? Jafnframt vil ég hvetja hæstv. forsrh. til þess að skipa aftur slíka nefnd fulltrúa allra stjórnmálaafla á Alþingi til að halda áfram að vinna þetta starf.

Virðulegi forseti. Í tillögunum er einnig að finna hugmyndir um persónukjör. Því miður eru engar tillögur um það í frv. Þegar maður les yfir þessi gögn virðast allir hafa horfið frá því að leggja eitthvað slíkt til þrátt fyrir að æðstu valdastofnanir hvers stjórnmálaflokks sem í framboði var fyrir síðustu kosningar, hafi allar ályktað um aukið persónukjör. Framsóknarmenn, sjálfstæðismenn, alþýðuflokksmenn, alþýðubandalagsmenn og ég held líka Samtök um kvennalista. Í þessum tillögum er ekki gert ráð fyrir því. Það er horfið frá því.

Ég er hlynntur persónukjöri og hefði talið æskilegt að menn tækju þetta skref. Hins vegar sannast hér að það er ekkert verið að taka á öllum þessum þáttum, meginvandanum, aðeins því sem snýr að misvægi atkvæða. Að gefa hv. kjósendum kost á því að raða --- að listar væru óraðaðir til kosninga og það væri svo vald hvers kjósanda hvort hann raðaði eða raðaði ekki --- er það sem ég hefði viljað sjá í þessu efni.

Að lokum, hvað varðar landafræðina í þessum tillögum, er sannarlega rétt að það eru búin til rosalega stór landsbyggðarkjördæmi. Ég er ekki viss um að margir hv. þm. mundu vilja sinna þeim kjördæmum sem verða til fyrir næstu kosningar þar sem Norðausturkjördæmið spannar nánast hálft landið. Þetta verða geysimiklar vegalengdir. Ég er að velta fyrir mér upp á Norðausturkjördæmið hvar kjördæmaþing flokkanna yrðu haldin, hvort það verður á Möðruvöllum, á Fjöllum eða hvað það nú heitir. Hvar sem það verður verður alla vega um langan veg að fara og eins gott að ekki þurfi að kalla oft saman fundi nema menn ætli bara að sinna þeim málum um fjarfundabúnað, internetið eða eitthvað slíkt. Við mundum þá kannski bara sendir myndir af okkur á jólakortum til að minna á hvernig við lítum út.

Með því að búa til þessi rosalega stóru kjördæmi minnka tengsl þingmanna og kjósenda eða rofna jafnvel. Það er mjög slæmt. Við sem störfum úti á landi vitum að fólk vill vera í nánu sambandi við okkur. Fólk vill fá að hitta okkur, fá fréttir og ræða málin við okkur. Ég óttast að þessi tengsl minnki mjög verulega.

Ég minni á að fjölmörg sveitarfélög, sveitarstjórnarmenn og samtök á þeirra vegum hafa ályktað gegn hugmyndum um svo stór kjördæmi. Ég verð þó að segja að ég hefði viljað sjá --- þó svo að það yrði kannski töluvert stórt, t.d. Norðurlandi slegið í eitt kjördæmi, Norðurl. v. og Norðurl. e. Ég hefði viljað sjá það vegna þess að með þeirri landafræði hefðum við getað séð mesta og besta mótvægið við höfuðborgarsvæðið, stærsta kjördæmið. Ég á mér þann draum að sjá þar innan þess kjördæmis, ef það yrði að veruleika, fjögur sveitarfélög, Húnavatnssýslurnar, Skagafjörð, Eyjafjörð og Þingeyjarsýslur. Þau væru mjög sterkt afl með Akureyri sem miðsvæði í þessu kjördæmi sem hefði þá nokkuð sterka stöðu. Ég er mjög andvígur þessum risastóru kjördæmum og tel þau skref aftur á bak.

Ég vil enda á því að fjalla um starfsaðstöðu þingmanna og, með leyfi forseta, lesa upp úr sama kveri og ég las úr áðan, þar sem fjallað er um starfsaðstöðu þingmanna:

,,Verði tillögur nefndarinnar að lögum er ljóst að aðstaða þingmanna til að sinna kjósendum í hinum landfræðilega stærri kjördæmum verður önnur en áður. Með hliðsjón af því hvetur nefndin til að aðstoð við þingmenn úr þessum kjördæmum verði aukin, t.d. þannig að þingmenn fái styrk til að njóta liðsinnis starfsmanns eða til annars konar aðstoðar.``

Í byggðanefndinni sem ég vitnaði til áður var fjallað um þetta á tveimur síðustu fundunum. Við skiluðum frá okkur tillögum í þessu efni. Mig minnir að lagt hafi verið til að þetta ætti að taka gildi strax árið 2000. Tillögurnar voru um að hver þingmaður fengi aðstoðarmann. Tillögurnar voru um það að tveir þingmenn frá sama framboði í einu kjördæmi, í þessum landsbyggðarkjördæmum, fengju einn og hálfan aðstoðarmann. Þrír færu þá upp í tvo o.s.frv. Ég tók eftir því að fulltrúar höfuðborgarsvæðisins töluðu stundum um að þetta mundi vera styrkur til þessara þingmanna. Við, nokkrir landsbyggðarmanna sem þarna vorum, andmæltum því og sögðum að þarna væri aðeins talað um aðstoðarmenn sem að sjálfsögðu ættu að vera á launaskrá Alþingis og njóta allra þeirra kjara sem því fylgir, þar á meðal, sem ekki veitir nú af, aksturskostnaðargreiðslum þegar farið verður að ferðast um þessi stóru kjördæmi. Þetta hefur mikinn kostnað í för með sér en er jafnframt nauðsynlegt verði frv. samþykkt eins og allt bendir til.

Ég vil aðeins geta þess hér í lokin að þetta verður að ganga fram samhliða. Síðasta spurning mín til hæstv. forsrh. í þessu, sem hann getur kannski svarað þegar hann kemur hér á eftir og ræðir um frv.: Mun hæstv. ríkisstjórn beita sér fyrir því á fjárlögum næsta árs að tekin verði inn fjárupphæð til að undirbúa og fara að vinna að því máli sem þarna er getið um, sem hlýtur að vera algert frumskilyrði að samþykkja um leið og stjórnarskipunarlögin verða samþykkt með þessum risastóru kjördæmum?

Þetta vildi ég segja um stjórnskipunarlögin, virðulegi forseti, og ég verð að segja að mér er mikill vandi á höndum við atkvæðagreiðsluna á eftir, hvernig fara skuli að. Ég ber fulla virðingu fyrir samkomulagi forustumanna flokkanna í þessum efnum. Ég heyri það að margir þingmenn eru hundóánægðir með það sem hér liggur fyrir en ætla samt að samþykkja þetta. Hér hefur komið fram, m.a. á síðasta þingi þegar maður les yfir öll þessi gögn, að menn líta á þetta sem skref í þá átt að gera Ísland að einu kjördæmi. Það kann vel að vera að eftir 10 ár verðum við e.t.v. með það mikið misvægi að ekki verði hægt að leiðrétta það í gegnum kosningalögin og við verðum að fara aðrar leiðir og gera landið að einu kjödæmi. Það getur vel verið. Ég óttast hins vegar að það sé ekkert á dagskrá vegna þess að í upphafsræðu hæstv. forsrh., þegar hann fylgdi þessu máli fram, gat hann þess að Sjálfstfl. og Framsfl. minnir mig, væru andvígir því að gera Ísland að einu kjördæmi. Mér þykir líklegt, þegar stærsti flokkur þjóðarinnar er andvígur því og þriðji minnsti flokkur þjóðarinnar, Framsfl. er líka á móti því, að þá sé kannski ekki víst að það nái fram alveg á næstunni.