Stjórnarskipunarlög

Þriðjudaginn 15. júní 1999, kl. 11:44:04 (253)

1999-06-15 11:44:04# 124. lþ. 5.3 fundur 1. mál: #A stjórnarskipunarlög# frv., KLM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 124. lþ.

[11:44]

Kristján L. Möller (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. forsrh. fyrir þau svör sem hann veitti mér en vil ítreka það sem ég sagði áðan. Við sem sátum í byggðanefnd litum á þetta sem bráðaaðgerðir, fyrstu tillögur. Ég held að ég hafi komið því til skila áðan en vil ítreka að þetta er aðeins lítill hluti af því sem vinna þarf til að jafna misvægi landsbyggðar og höfuðborgarsvæðis í lífskjörum og búsetuskilyrðum. Ég held að margt fleira hafi þurft að taka. Við unnum í nokkurri tímaþröng í þessari nefnd þannig að við slepptum mörgum málum þó við færum í gegnum mörg. Því er margt eftir.

Varðandi samgöngurnar vil ég endurtaka að þessir 2 milljarðar sem spilað var út rétt fyrir kosningar eru aðeins lítið brot í þetta málefni. Ég get t.d. minnt á að ef Siglufjörður, heimabær minn, á að lenda inni í Norðausturkjördæmi þá er alveg óhætt, hæstv. forsrh., að skrifa eitt stykki jarðgöng. Ég vil reyndar nota tækifærið og þakka hæstv. forsrh. fyrir fögur orð um jarðgöng til Siglufjarðar í kosningabaráttunni.

Varðandi aðstoð til þingmanna, þá litum við svo að hún þyrfti að koma miklu miklu fyrr fram en þegar kjördæmin verða til, eftir fjögur ár. Það kom fram þegar við vorum að ræða við starfsmenn þingsins og þeir voru að fræða okkur nýgræðingana um það sem hér fer fram, að kostnaðarhlutdeild mundi virka líkt og við færum að heimsækja önnur kjördæmi. Ég held að það sé mikilvægt, hæstv. forsrh., að fjárveitingar komi fyrr til þannig að þetta hefjist ekki síðar en eftir tvö ár þegar þetta kjörtímabil verður hálfnað. Þetta þarf að koma til svo að nauðsynlegt samstarf geti farið að þróast.