Stjórnarskipunarlög

Þriðjudaginn 15. júní 1999, kl. 12:16:10 (257)

1999-06-15 12:16:10# 124. lþ. 5.3 fundur 1. mál: #A stjórnarskipunarlög# frv., KVM
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 124. lþ.

[12:16]

Karl V. Matthíasson:

Herra forseti. Við ræðum nú um frv. til laga um breytingu á stjórnarskipunarlögum og verið er að fjalla um að breyta kjördæmunum í landinu og þingmannatölunni en ég verð að segja að ég er ekki sammála því sem kemur fram í þessu frv. Ég er ósammála því að þingmönnum Vestfjarða, Vesturlands og Norðurl. v. muni fækka svo mikið sem fram hefur komið. Í umræðunni hefur verið sagt, svo að ég vitni í ræðu hæstv. forsrh. beint:

,,Þegar slíkar breytingar eru í deiglunni er eðlilegt að umræða skapist um byggðamál og byggðastefnu í víðara samhengi.``

Þetta kom fram í ræðu hans og ber þetta keim af því að við séum að versla í raun og veru um þingmannssæti og aðstöðu og skilyrði sem landsbyggðin býr við. Í máli hæstv. forsrh. kom fram að m.a. kæmi til álita og væri um talað að taka þátt í kostnaði fólks sem þarf að sækja sér þjónustu til sjúkrahúsa á höfuðborgarsvæðinu. Hægt er að velta þessu öllu fyrir sér á marga vegu og spyrja t.d.: Hvað er margra þingmanna ígildi að fá malbikað frá, við skulum segja Barðaströnd að Reykhólum? Hvað er það margra þingmanna ígildi að sjávarpláss, sem hefur misst allan kvóta sinn, fái svo sem 500 tonna kvóta? Hvað er það margra þingmanna ígildi að foreldrar sem fara með barn sitt veikt og þurfa að vera með það margar vikur og jafnvel mánuði til að njóta þjónustu barnadeildarinnar á Landspítala Íslands, ef það fólk fengi greiddan húsnæðiskostnað og vinnutap vegna þess að það þarf að vera með börnum sínum þegar þau eru til lækninga?

Það er eðlilegt að við landsbyggðarþingmenn tölum svona því að málið er sett þannig upp. Við ættum kannski fyrst að spyrja hvert hlutverk Alþingis sé? Í stjórnarskránni segir í 2. gr.: ,,Alþingi og forseti Íslands fara saman með löggjafarvaldið.`` Það er hlutverkið. Hlutverk Alþingis er að setja lög í landinu, og hvernig lög á Alþingi að setja? Lög um réttlæti, Alþingi á að setja lög um að þegnunum sé ekki mismunað og þegar ranglæti fer að eiga sér stað þarf að leiðrétta það.

Nú er verið að tala um að það þurfi að afnema ranglæti, koma á réttlæti með því að breyta misvægi atkvæða, að hver kjósandi í landinu eigi jafnmörg prósent í þingmanninum sínum. Ekki að t.d. Vestfirðingar eigi 20% í þingmanni sínum eða 0,7% og einhverjir aðrir eigi mun færri prósentur. En fyrst við erum að tala um þetta er nauðsynlegt að líta vel á umræðuna alla í sambandi við landsbyggðina.

Hvað kostar einn lítri af 90° heitu vatni á Bíldudal? Og hvað kostar einn lítri af 90° heitu vatni á Akureyri, Blönduósi eða í Hafnarfirði eða Reykjavík? Ef svarið er það að einn lítri af 90° gráðu heitu vatni í Reykjavík kosti einn eyri en 10 aura á Vestfjörðum þá er ákveðið misvægi þar. Hvað kostar fyrir einn nemanda í Háskóla Íslands, Menntaskólanum í Reykjavík, Fjölbraut í Breiðholti eða hvar sem er að stunda nám sitt ef hann býr hér á þessu svæði eða ef hann býr úti á landi? Við sjáum að í flestum tilvikunum hallast á landsbyggðina.

Á þessari stundu má segja að einhvers staðar á landsbyggðinni er ein fjölskylda að pakka saman eigum sínum í gám og flytja suður vegna þess að á hverjum degi flytja þrjár manneskjur utan af landi til höfuðborgarsvæðisins. Þess vegna er ekki nema von að margir vilji taka það ákvæði úr stjórnarskránni þar sem kveðið er á um kjördæmaskipan og setja það inn í venjulegan lagabálk sem hægt er að breyta á Alþingi eftir hendinni eftir því hvað fólk flytur hratt til höfuðborgarsvæðisins.

Fyrir fjórum árum voru 800 fleiri kjósendur á Vestfjörðum en eru nú. Það er meira en það sem er á bak við einn þingmann. Kannski áttu þeir bara að flytja hann með sér í bæinn, í Breiðholtið eða Grafarvoginn (Gripið fram í: Eða Grundarfjörð.) eða Grundarfjörð. Ekki væri það nú verra ef Alþingi Íslendinga væri þar og ég er sannfærður um að fólk á Vesturlandi mundi jafnvel vilja sleppa 3--4 þingmönnum ef þeir fengju Alþingi Íslendinga í Grundarfjörð, eins og hv. 3. þm. Vestf. talaði um áðan í sambandi við staðsetningu þingsins í Bandaríkjunum.

Nei. Þegar landsbyggðarþingmenn eru orðnir söluvara fyrir brýr og ýmislegt annað vilja þeir náttúrlega vera miklu dýrari en boðið er upp á nú. Kannski væri hægt að fara að tala um þessi mál, svo við tökum aftur dæmið af Vestur-Barðastrandarsýslu ef það landsvæði væri í heils árs samgöngumöguleikum á landi allt árið en fleiri mánuði ársins er ekki nokkur vegur að aka landleiðina til Patreksfjarðar, Bíldudals eða Tálknafjarðar. Það er bundið ferju sem á stundum hefur ekki farið alla daga vikunnar.

Hv. þm. Kristján Möller nefndi áðan að verið væri að auka skattbyrði landsbyggðarinnar á sama tíma og þetta mál væri til umræðu eins og t.d. með þungaskattinn sem hefur verulega slæm áhrif fyrir líf landsbyggðarinnar. Kannski er best að við spyrjum okkur að þeirri grundvallarspurningu: Viljum við Íslendingar að það sé búið úti á landi? Viljum við að byggð sé á Húsavík? Viljum við að byggð sé á Raufarhöfn, Suðureyri, Reyðarfirði? Ef svarið er já, þá verðum við að vera sjálfum okkur samkvæm. Hvað ætlum við að segja við fólkið sem ætlar að flytja út á land, sem við viljum hvetja til að flytja út á land vegna þess að við teljum óæskilegt að svo margt fólk komi utan af landi? Eigum við að kalla það flóttamenn? Það eru engar móttökunefndir þegar það fólk kemur suður. Hvað viljum við segja við það fólk sem við hvetjum til að flytja út á land? Segjum við: Börnin þín munu fá réttindakennara. Það er öruggt að heilsugæslulæknir er í þinni byggð. Samgöngur eru góðar. Er þetta sagt? Hæstv. forsrh. segir að stefnt sé að því að bæta ýmislegt úti á landi en það er eins og hv. þm. Kristján Möller sagði. Þetta er bara eins og bland í poka sem verið er að útdeila og það meira að segja mjög illa blandað, beiskt og rammt og gamalt og dýrt. Það er náttúrlega ekkert einsdæmi að fólk vilji flytja af landsbyggðinni á þéttbýlisstaðina vegna öryggis, heilsugæslunnar og menntakerfisins. Til þess að fólk búi úti á landi verður að vera þar atvinnuöryggi.

[12:30]

Ég man að árið 1974 voru menn að slást um lóðir í Ólafsvík. Hver slæst um þær núna? Af hverju var slegist um að fá lóðir þar og víðar um land, alls staðar? Gífurleg uppbygging var á landsbyggðinni fyrir rúmum 20 árum. Núna er það þannig að ef einhvern mann langar til að kaupa sér trillu á dýru verði, sem kostar margar milljónir, en þarf að fá lán til þess og viðkomandi á stórt og fínt hús til að veðsetja, þá er bara sagt við þennan mann í bankanum: Því miður, elsku karlinn minn. Þú færð ekki lán vegna þess að húsið þitt, allt sem þú hefur verið að vinna og setja þína peninga í er einskis virði. Þetta er staðan í dag.

Er það rétt að fasteignagjöld á landsbyggðinni verði lækkuð? Er það rétt? Ég heyrði þetta sagt í kosningabaráttunni að jafnvel hæstv. forsrh. hefði ýjað að því einhvers staðar. En lítið heyrist um það nú. (KHG: Það er í stjórnarsáttmálanum.) Það er í stjórnarsáttmálanum, segir hv. 3. þm. Vestf. En það væri miklu betra að í stjórnarsáttmálanum væri að barist yrði fyrir því að verð fasteigna á landinu hækkaði en ekki að fasteignaskatturinn lækkaði. Það væri miklu raunhæfara. (KHG: Á að hafa hærri fasteignaskatta á landsbyggðinni en í Reykjavík?) Ég vil hafa sömu fasteignaskatta bæði í Reykjavík og á landsbyggðinni en ég vil líka hafa sama verðgildi á fasteignum í Reykjavík og á landsbyggðinni. Það er það sem ég vil og það er það sem ég berst fyrir og mun gera sem þingmaður Vestf.

Það hefur hallað gífurlega mikið á landsbyggðina undanfarin ár og það er því miður þannig að margir úti á landi hugsa með sér: Ég vildi að ég kæmist suður þangað sem tækifærin eru, þar sem uppbyggingin er, þar sem álverin eru reist og atvinnutækifæri eru. Eitt mál sem skiptir miklu fyrir landsbyggðina hefur farið illa, þ.e. málefni hennar í sambandi við kvótann. Það væri mjög þarft að lögin væru þannig og reglugerðirnar að einn einstaklingur geti ekki siglt í burtu með fleiri hundruð tonna fiskveiðiheimildir og skilið fólkið eftir. Þetta er að verða eins og sums staðar í Suður-Ameríku. Fólk upplifir það þar sem ávaxtaauðhringirnir stjórna því hver fær vinnu og hver ekki. Og þegar fólk sem er að vinna á ekrunum er orðið veikt er því hent út fyrir girðinguna sem United Fruit eða einhver fleiri fyrirtæki eru að reka þarna.

Nei, herra forseti. Það verður að huga að því áður en farið er að fækka þingmönnum landsbyggðarinnar hvað hægt sé að gera raunverulega til þess að snúa þessu við. Sumir hafa talað um að þetta frv. sé liður eða skref í því að gera landið að einu kjördæmi. Svo segja aðrir annað. En það stefnir náttúrlega í það að landið verði bara eitt kjördæmi þegar allt fólkið er flutt á þetta svæði hér og þá þarf ekkert að hafa neinar áhyggjur af því, herra forseti. Þá má líka spyrja sig hvort ekki sé þá bara nóg að hafa borgarstjórn á þessu svæði og ekkert þing ef öll þjóðin er komið hingað og þá er þessu bara stjórnað af borgarráði.

Hvar er mesta ranglætið í landinu í dag? Felst það í því að íbúarnir á Njálsgötu eða Hringbrautinni eða í Lækjargötunni í Hafnarfirði hafi ekki jafnmikið að segja þegar þeir greiða atkvæði í alþingiskosningum? Felst mesta ranglætið í því í landinu? Er það hið brýnasta mál sem fyrir þessu þingi liggur og Alþingi almennt að jafna misvægi atkvæða? Ég segi nei. Það eru mörg önnur mál sem brýnna er að taka til umfjöllunar eins og t.d. staða fiskverkafólks sem var til umræðu í gær, hver kjör það býr við, og margs verslunarfólks sem er alveg á svívirðilega lágum launum. Þar er mikið ranglæti og gaman hefði verið að komið hefði fram tillaga um að leiðrétta kaup þessa fólks.

Það er líka ranglæti fólgið í því að ein fjölskylda ákveður það fyrir nokkrum árum að flytja út á land í sjávarpláss vegna þess að svo myndarleg útgerð var þar og framtíðarsýnin svo björt, nóg að gera, næg atvinna og nægur fiskur og jafnvel sagt: lífið er saltfiskur. En einn daginn þegar aðstæður eru þannig að útgerðarmanninum þóknast að fara í burtu með alla útgerðina, hvað verður þá um fólkið? Þetta er ranglæti. Þetta er algert ranglæti, miklu meira ranglæti en það sem felst í misvægi atkvæða vegna þess að sá maður sem flutti út á land getur ekki í dag sagt með sjálfum sér: Jæja, skítt og lagó. Útgerðarmaðurinn er farinn, ég ætla þá bara sjálfur að stofna mína útgerð og róa á mínum báti til fiskjar og veiða kannski 1--3 tonn í viku og fara með þau í skúrinn sem ég leigi hjá honum Gunna og fletja og stofna til nýrrar útgerðar. Þetta er ekki hægt í dag. Þetta er bannað. Þetta er alger skerðing á frelsi einstaklingsins og það er hörmulegt að það skuli vera Sjálfstfl. sjálfur sem stendur fyrir þessu og Framsfl. Það er dapurlegt. Því miður er þetta svona. En nú er lag. Til þess erum við kjörin að berjast á móti ranglætinu og setja lög sem eyða ranglæti. Það er tækifæri til þess að gera það. En í staðinn erum við að ræða um að breyta ákvæðum stjórnarskrár lýðveldisins þannig að hægt sé að afgreiða eins og hver önnur lög að breyta kjördæmum eftir því hvar fólk flyst á milli þeirra og þá aðallega hingað á það svæði sem við erum nú stödd á.

Hæstv. forseti. Ástandið í byggðamálum á Íslandi er ekki það glæsilegt að tilefni sé til að fækka þingmönnunum enn frekar því að þau fyrirheit sem hafa verið gefin í tengslum við þetta mál eru eins og sagt hefur verið bland í poka og það frekar beiskt, slæmt og dýrt.

Ég treysti mér ekki til að greiða atkvæði með þessu frv. á þeim forsendum sem ég hef rakið hér fyrir utan það að ég hef ekki heyrt, eins og aðrir þm. Vestf., nokkurn mann á Vestfjörðum vera hlynntan þessu máli. (Gripið fram í: Sighvatur Björgvinsson.) Hv. þm. Sighvatur Björgvinsson hefur ekki sagt að hann sé hlynntur þessu máli, hann lítur á þetta sem neyðarlendingu og að allt of mikill þrýstingur hafi verið í þessu máli. Hann lítur líka svo á að þetta sé eitt skref í þá átt að gera landið að einu kjördæmi.

Það sem brýnt er að gera er að efla landsbyggðina, styrkja hana mun meira en boðað hefur verið eins og t.d. í því að gera öll landsvæðin þannig samgöngulega að akfært sé til þeirra allt árið. Margt annað má nefna sem ég mun kannski koma að síðar.