Stjórnarskipunarlög

Þriðjudaginn 15. júní 1999, kl. 12:56:28 (261)

1999-06-15 12:56:28# 124. lþ. 5.3 fundur 1. mál: #A stjórnarskipunarlög# frv., KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 124. lþ.

[12:56]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég held að við náum nú ekki saman í þessu máli, ég og hv. þm., það er nokkuð ljóst. Ég fór yfir það í máli mínu og óþarfi að endurtaka í andsvari rökin sem ég hafði fram að færa gegn rökum hennar.

Vegna þess að þingmaðurinn fullyrti úr ræðustól á Alþingi að þingmenn sem hefðu komið upp í morgun hefðu gengist inn á heiðursmannasamkomulag á þinginu í vor og lýstu sig nú óbundna af því vil ég spyrja hv. þm.: Við hvaða þingmenn á þingmaðurinn? Þingmaðurinn er að drótta því hér að ræðumönnum að þeir standi ekki við orð sín, sem þeir gáfu fyrir kosningar, og ég vil fá að vita, herra forseti, við hverja þingmaðurinn á sem hún vænir um óheilindi í þessu máli.

Ég get sagt fyrir mitt leyti að ég kann ekki við svona trakteringar. Ég talaði fyrir skoðun minni á þinginu í mars og greiddi atkvæði samkvæmt þeirri skoðun, eins og þingmaðurinn getur flett upp í þingtíðindum og ég hef ekki skipt um skoðun og ræða mín var nákvæmlega eins að efni til og ræðan í mars. Ég vænti þess að hv. þm. dragi til baka þessar ómaklegu árásir sínar og ásakanir í garð okkar í morgun.