Rekstrarvandi sjúkrahúsanna og sumarlokanir

Þriðjudaginn 15. júní 1999, kl. 13:31:16 (269)

1999-06-15 13:31:16# 124. lþ. 5.92 fundur 55#B rekstrarvandi sjúkrahúsanna og sumarlokanir# (umræður utan dagskrár), Flm. ÁSJ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 124. lþ.

[13:31]

Árni Steinar Jóhannsson:

Hæstv. forseti. Við teljum ástæðu til þess að hefja umræðu um rekstrarvanda sjúkrahúsa landsins og sumarlokanir sjúkrahúsa. Ég vil beina því til hæstv. heilbrrh. hvort við séum orðin föst í þeim fasa að mörgum deildum sjúkrahúsa landsins sé lokað hvert einasta sumar. Ég hef fengið þær upplýsingar að nú standi yfir sumarlokanir sem eru í svipuðum dúr og undanfarin ár. Svo virðist því sem þetta sé orðið verklag að loka deildum yfir sumartímann.

Annar þáttur er rekstrarvandi sjúkrahúsanna. Upplýsingar hafa komið fram um að hann geti verið allt að því 1,5 milljarðar þegar litið er á allt landið og mér skilst eftir þeim upplýsingum sem ég hef fengið að rekstrarvandinn á höfuðborgarsvæðinu sé um 1,3 milljarðar.

Varðandi rekstur sjúkrahúsanna eru sum sjúkrahúsin þannig stödd að rekstraráætlun þeirra var samþykkt með halla og nefni ég t.d. Sjúkrahúsið á Ísafirði en þar var samþykkt áætlun sem er með 10 millj. kr. halla.

Launahækkanir hafa átt sér stað hjá starfsfólki sjúkrahúsanna, aðallega hjá læknum og hjúkrunarfólki og sá vandi sem hlýst af launahækkunum, sem sagt aukinn rekstrarkostnaður, hefur ekki verið leystur. Fyrir um einum og hálfum mánuði lágu allar þær upplýsingar fyrir sem þurftu að liggja fyrir en ekkert hefur verið gert í málunum.

Nauðsynlegt er fyrir starfsfólk sjúkrahúsanna, ég tala nú ekki um neytendur í landinu, að þessi mál séu afgreidd. Ég tel því mjög mikilvægt að þau séu rædd og svör komi frá hæstv. heilbrrh. um hvar þau eru stödd og hvað hún hyggst gera til þess að leysa þann rekstrarvanda sem þessar stofnanir standa frammi fyrir.

Að svo mæltu óska ég eftir svörum hæstv. heilbrrh. aðallega um sumarlokanirnar en síðan um lausn á þeim rekstrarvanda sem stofnanirnar standa frammi fyrir.