Rekstrarvandi sjúkrahúsanna og sumarlokanir

Þriðjudaginn 15. júní 1999, kl. 14:04:09 (281)

1999-06-15 14:04:09# 124. lþ. 5.92 fundur 55#B rekstrarvandi sjúkrahúsanna og sumarlokanir# (umræður utan dagskrár), heilbrrh.
[prenta uppsett í dálka] 5. fundur, 124. lþ.

[14:04]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi þakka hv. málshefjanda fyrir mjög málefnalega umræðu. Í fyrsta skipti sem málshefjandi ræðir um lokanir sjúkrahúsa þá er það gert á raunhæfan hátt og það þurfum við að gera.

Hér er verið að viðurkenna að sumarlokanir eru vegna sumarleyfa starfsfólks og það þarf að semja við starfsfólk ef breyta á því sérstaklega. Hér erum við ekki að tala um fjárskort. Við erum að tala um lögbundin sumarleyfi.

Hv. málshefjandi spyr hvort ekki eigi að gera einhverjar breytingar til að við stöndum ekki frammi fyrir þessari staðreynd ár eftir ár og það er það sem við höfum verið að gera. Merkasta breytingin sem við höfum verið að vinna að er sú að einn forstjóri verði yfir báðum sjúkrahúsunum. Það gerir það að verkum að við getum samhæft störf þessara tveggja sjúkrahúsa og einnig að í ár er auðveldara að vinna að þessu en verið hefur undanfarin ár.

Að ýmsu öðru er verið að vinna einmitt til þess að við þurfum ekki að loka viðkvæmri starfsemi því að stjórnendur sjúkrahúsanna standa frammi fyrir því á hverju sumri að velja og hafna og í ár hefur þessi viðkvæma starfsemi sem hér hefur verið rædd verið varin. Fólk á biðlistum er fremur látið bíða en viðkvæmri starfsemi hlíft. (Gripið fram í.)

Vegna þess að hv. þm. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir grípur fram í fyrir mér vil ég einmitt minnast á að verið er að undirbúa það að opna bráðadeild fyrir geðsjúk börn og það er verið að fjölga sérhæfðu starfsfólki þar. (Gripið fram í: Hvenær?)

Varðandi annað sem verið er að gera einmitt til þess að fjölga starfsfólki og þá sérstaklega hjúkrunarfræðingum sem okkur vantar tilfinnanlega, þá höfum við verið að hækka laun og ég hélt að samkomulag væri um það í þessum sal að hækka laun heilbrigðisstarfsmanna til að halda (Forseti hringir.) uppi betri starfsemi en við höfum hingað til getað gert. Við stöndum frammi fyrir því ... Er tími minn búinn?

(Forseti (GÁS): Hann er búinn.)

Það er nú verst því að ég átti eftir að ræða hér miklu meira. En við stöndum frammi fyrir því nú að sem betur fer (Forseti hringir.) er rekstrarvandinn minni en við höfum oft staðið frammi fyrir um þetta leyti.