Vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

Þriðjudaginn 15. júní 1999, kl. 14:47:29 (286)

1999-06-15 14:47:29# 124. lþ. 6.1 fundur 9. mál: #A vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.# frv., forsrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 124. lþ.

[14:47]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég tek undir næstsíðustu orð hv. ræðumanns um það að ég er enn þeirrar skoðunar að hækkanir tryggingafélaganna hafi verið úr samhengi við það sem þeir héldu fram sjálfir varðandi breytingu á skaðabótalögum. Hins vegar hvorki get ég, má eða vil gefa Fjármálaeftirlitinu nein fyrirmæli um afstöðu þess og það hvorki mætti, gæti eða ætti að fara eftir neinum slíkum fyrirmælum sem frá mér eða öðrum kæmu. Hins vegar vonast ég til þess að það rísi undir því að skoða þetta mál vel og skili áliti sínu.

Þegar ég sá niðurstöðu Hagstofunnar þá kom hún mér á óvart og ég bað um skýringar. Þær eru jú þær að þegar búið er að selja eitthvert vörumagn á þúsund krónur og síðan er vörumagnið aukið og verðið þess vegna hækkað þá sé óeðlilegt að telja það til vísitöluhækkunar. Ég skil það dæmi og þess vegna skil ég þessar forsendur.

Á hinn bóginn er um það að ræða gagnvart tryggingunum að þetta eru lögboðnar tryggingar frá okkur þannig að fólkið verður að taka það magn ,,sem því er rétt`` og þess vegna þýðir það aukin útgjöld fyrir viðkomandi. (Forseti hringir.) Ég reyni að koma í næstu umferð.