Vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

Þriðjudaginn 15. júní 1999, kl. 14:54:44 (293)

1999-06-15 14:54:44# 124. lþ. 6.1 fundur 9. mál: #A vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.# frv., Flm. JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 124. lþ.

[14:54]

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. fór allt í einu að blanda vaxtabótum í málið og taldi þær skuldahvetjandi. Hv. þm. hafði líka áhyggjur af stöðu ríkissjóðs og sagði að sú breyting sem við lögðum til varðandi það að falla frá bensíngjaldshækkuninni mundi gera stöðu ríkissjóðs verri. En þegar fasteignaverð er að fara svona upp, m.a. vegna áhrifa af nýju húsnæðislöggjöfinni sem hv. þm. stóð að, erum við líka að hækka vaxtabæturnar og það mun kosta mikil útgjöld, líka fyrir ríkissjóð. Þetta mun ekki bara koma niður á heimilunum í landinu í formi greiðsluerfiðleika heldur líka í auknum útgjöldum hjá ríkissjóði vegna vaxandi þarfa á vaxtabótum.