Vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

Þriðjudaginn 15. júní 1999, kl. 14:58:57 (296)

1999-06-15 14:58:57# 124. lþ. 6.1 fundur 9. mál: #A vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.# frv., viðskrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 124. lþ.

[14:58]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég vonast til að ég hafi veitt hv. þm. fullnægjandi svar varðandi reglugerðarbreytinguna og -setninguna.

Ég ætla þá að snúa mér aftur að hækkunum Landsvirkjunar og ítreka það sem ég sagði áðan að samkomulag var milli eigenda Landsvirkjunar, þ.e. Reykjavíkurborgar --- og fyrir hönd Reykjavíkurborgar kom fram í því máli borgarstjórinn í Reykjavík, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir --- og síðan milli iðnrh. og bæjarstjórans á Akureyri, hvernig þróun á gjaldskrá Landsvirkjunar skyldi verða. Því var ég að lýsa áðan. Gert er ráð fyrir því að strax upp úr aldamótum geti orðið um 20--30% lækkun á orkuverði að ræða á fyrsta áratug næstu aldar. En fram undir þann tíma er gert ráð fyrir að orkuverðið hækki í samræmi við þróun verðlags.

Nú hef ég látið Landsvirkjun taka saman fyrir mig samanburð á gjaldskrárbreytingum Landsvirkjunar frá apríl 1996 eða frá þeim tíma sem þetta samkomulag var gert, og aftur til dagsins í dag, annars vegar þar sem borin er saman þróun byggingarvísitölu og hins vegar gjaldskrárbreytingarnar, en það var gert ráð fyrir því í samkomulaginu að gjaldskráin mundi þróast í samræmi við byggingarvísitölu. (Forseti hringir.) Þessi mynd sýnir ótvírætt, og hana skal ég gefa hv. þm., að gjaldskrárbreytingin hefur þróast mun minna eða hækkað mun minna en nokkurn tíma byggingarvísitalan. (Forseti hringir.) Þar af leiðandi hefur raunaukning ekki orðið heldur raunlækkun á gjaldskrá Landsvirkjunar á undanförnum árum eða frá því í tíð núv. ríkisstjórnar og hinnar fyrri.