Vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

Þriðjudaginn 15. júní 1999, kl. 15:21:25 (299)

1999-06-15 15:21:25# 124. lþ. 6.1 fundur 9. mál: #A vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.# frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 124. lþ.

[15:21]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Fyrst um að ég hafi haldið því fram í kosningabaráttunni að nýjar upplýsingar hefðu komið fram hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Það er rangt hjá hæstv. ráðherra. Ég tiltók það, ef ég man rétt, að það væri samkvæmt áliti, dagsettu, á þeirri heimasíðu sem ráðherrann nefndi, 28. jan.

Hæstv. ráðherra segir af nokkru stærilæti finnst mér að engum ætti að koma á óvart sú bensínhækkun sem varð með ákvörðun ríkisstjórnar. Að sjálfsögðu kemur það engum á óvart. Við vissum öll um þessa bensínhækkun vegna þess að hún var partur af forsendum fjárlaga. Við höfum hins vegar bent á að með tilliti til þróunarinnar sé það skylda ríkisstjórnarinnar að ganga fram fyrir skjöldu og reyna allt sem hún getur til að draga úr verðbólgu, m.a. til að koma í veg fyrir óhóflegt samspil verðlags og launaþróunar, sem líklegt er að komi í ljós þegar vindur fram á þetta ár. Þetta er ein aðgerð sem við leggjum til.

Auðvitað kom þetta okkur ekkert á óvart. Hvað hefur gerst í millitíðinni? Það hefur m.a. gerst að Seðlabankinn hefur endurskoðað verðbólguspá sína, ekki einu sinni og ekki tvisvar heldur þrisvar. Hann byrjaði í september með spá upp á 1,9%, í desember var það 2,2%. Ég veit ekki hvar hún liggur núna, ég held að hún sé komin í 3,3%. Íslandsbanki spáir 3,9%. Með öðrum orðum sjáum við fram á að líklegt sé að Seðlabankinn eigi eftir að endurskoða spá sína enn frekar.

Það þýðir ekki fyrir hæstv. ráðherra að koma hingað og tala glannalega og af stærilæti til okkar sem reynum að halda uppi málefnalegri umræðu. Um hvað snýst umræðan, herra forseti? Hún snýst um að við erum stödd á seinni hluta hagsældarskeiðs sem við ættum öll að kappkosta að framlengja. Ég tel hafa orðið mistök af hálfu ríkisstjórnarinnar sem erfitt verði að snúa ofan af og geri það að verkum að hagsældarskeiðið verði skemmra en ella. Um það snýst umræðan.

Það þýðir ekkert fyrir hæstv. ráðherra að gera lítið úr þessu og kalla það verðbólguskot. Ja, ég vona svo sannarlega að hæstv. ráðherra hafi rétt fyrir sér og varnaðarorð okkar séu óþörf. En það er vegna þessara varnaðarorða sem þessi umræða er í gangi. Enn blasir við að hæstv. ráðherra hefur ekki, hvorki í stefnuyfirlýsingu, í þessari ræðu sinni né annars staðar, bent á þau ráð sem hann vill nota til þess að auka þjóðhagslegan sparnað. Það er það eina sem skiptir máli í þessu dæmi.