Vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

Þriðjudaginn 15. júní 1999, kl. 15:32:36 (304)

1999-06-15 15:32:36# 124. lþ. 6.1 fundur 9. mál: #A vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.# frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 124. lþ.

[15:32]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Það kom fram hjá mér áðan að vísitöluhækkunin vegna breytingarinnar á bensíngjaldi var ekki nema 0,09%. Það veltir því ekki þungu hlassi í þessum verðbólguútreikningum í sjálfu sér. (Gripið fram í.) Ég á ekki von á því að endurskoðuð tekjuáætlun komi fyrir allt þetta ár á fundi fjárln. í fyrramálið þó að upplýsingar liggi kannski fyrir um tekjurnar það sem af er árinu. Það er því alveg ótímabært að svara þeirri spurningu. Eins og menn tala í þessum sal, þá heyrist mér að ekki muni veita af þessum tekjum til þess að slá á þenslu og sýna aðhald í ríkisrekstrinum.

Að því er varðar skuldir heimilanna þá geri ég athugasemd við að sí og æ sé tekin þessi eina stærð, skuldir heimilanna, án samhengis við aðrar stærðir, m.a. eignir heimilanna. Hins vegar er ástæða til að taka undir að því marki sem það kom fram í ræðu hv. þm. að það má alveg halda því fram að bankar og fjármálastofnanir hérlendis á þessu ári og hinu síðasta hafa verið fullglannaleg í útlánum og hafi kannski hleypt inn í landið fullmiklu af erlendu lánsfé.

Hvað gerði Seðlabankinn í því efni fyrr á þessu ári? Hann þrengdi reglurnar og herti að þessum stofnunum til að takmarka þetta. Þannig er stjórnað í landinu í dag, slíkum stjórntækjum er beitt en ekki skömmtun, kvótum og boðum og bönnum af ýmsu tagi eins og áður tíðkaðist. Nú eru notaðar sömu aðferðir í þessum efnum og í öðrum löndum og Seðlabankinn hefur óbeint áhrif á þetta. Ég held að þetta sé farið að bera árangur. Ég a.m.k. vona það því að í óefni getur stefnt ef fram heldur sem horfir, sérstaklega með skammtímalánsfé frá útlöndum.