Vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

Þriðjudaginn 15. júní 1999, kl. 15:34:44 (305)

1999-06-15 15:34:44# 124. lþ. 6.1 fundur 9. mál: #A vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.# frv., Flm. JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 124. lþ.

[15:34]

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir) (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst jákvætt að hæstv. ráðherra viðurkennir raunverulega þær hættur sem uppi eru vegna mikillar útlánaþenslu í bönkunum, útlánaþenslu almennt í þjóðfélaginu og viðurkennir að glannalega hafi verið haldið á málum, ef ég skildi ráðherrann rétt. Ég held að það sé gott út af fyrir sig ef hæstv. ráðherra viðurkennir það. En ráðherra sem vill ekki gera mikið með skuldir heimilanna og segir að eignir séu þar á móti verður að átta sig á því að stór og vaxandi hluti fjölskyldna hér á landi á bara skuldir og mikið af skuldum en engar eignir á móti. Við höfum séð á undanförnum árum að sá hópur fer stækkandi og full ástæða er til að hafa áhyggjur af honum. Mér finnst mjög sérkennilegt í þeirri umræðu sem farið hefur fram almennt um efnahagsmálin í tengslum við þetta frv. og þá miklu þenslu sem er á markaðnum, að ráðherrann sá enga ástæðu til að eyða einu orði að því sem er að gerast á fasteignamarkaðnum, 10--25% hækkun á fasteignum á höfuðborgarsvæðinu sem getur haft í fyllingu tímans, við skulum þó vona ekki, áhrif á stöðu ríkissjóðs ef svo fer eins og ýmsir halda fram. Meðal annars vitnaði ég til Þjóðhagsstofnunar og Seðlabankans um að þetta gæti leitt til mikilla greiðsluerfiðleika heimilanna. Þess vegna veldur það mér vonbrigðum að hæstv. fjmrh. skuli ekki taka á slíkum málum úr þessum ræðustól og segja þjóðinni hvaða viðbrögð hann vill hafa við þeirri miklu þenslu sem er í þjóðfélaginu. Mér finnst ég vera litlu nær um hvað fjmrh. íslensku þjóðarinnar vill gera til að taka á þeim miklu þenslueinkennum sem hér eru, en hann viðurkennir þó að glannalega hafi verið farið að hjá fjármálastofnunum og bönkum. Það er alveg rétt hjá ráðherranum.