Vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

Þriðjudaginn 15. júní 1999, kl. 15:39:34 (307)

1999-06-15 15:39:34# 124. lþ. 6.1 fundur 9. mál: #A vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.# frv., JB
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 124. lþ.

[15:39]

Jón Bjarnason:

Virðulegi forseti. Mig langar til að taka þátt í umræðunni. Ég lýsi því yfir að ég er sammála þeim tillögum sem eru lagðar fram en kannski ekki alfarið á öllum þeim forsendumn sem frsm. hefur mælt fyrir.

Ég deili hins vegar áhyggjum hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur og annarra ræðumanna af verðbólgu og þenslu. Ég vil benda á, eins og kom líka aðeins fram í máli hæstv. fjmrh. varðandi þensluna sem hér er vandamál er á suðvesturhorninu. Hæstv. fjmrh. minntist á aukinn kaupmátt og góðæri sem leiddi síðan til aukinnar þenslu. Þetta góðæri hefur ekki nema að takmörkuðu leyti komist upp fyrir Elliðaárnar.

Virðulegi forseti. Nú reynir á þingmenn Reykjavíkur og Reykjaness. Nú reynir á hvort þeir eru reiðubúnir að koma saman sérstaklega og taka á þeim vanda landsins sem er þenslan á suðvesturhorninu. Hún er að steypa okkar landi. Hún er að gera lífsskilyrðin erfiðari úti um hinar dreifðu byggðir. Nú er það hlutverk þeirra hv. þm. að leysa byggðavandamál sín sem er vandamál þjóðarinnar. (Gripið fram í.) Nei, það held ég ekki en þeir hlusta þegar þeir vilja fá aukin völd. En þeir nýta ekki einu sinni það vald sem þeir þegar hafa til að taka á málum kjördæmis síns og eru þar af leiðandi að valda þjóðinni allri vandræðum og síðan súpum við öll seyðið af.

Ég ætla að koma að þessu máli frá annarri hlið. Ég ætla að koma að því út frá skattheimtu ríkisins á bifreiðum og bifreiðanotkun landsmanna. Samkvæmt áætlunum Félags ísl. bifreiðaeigenda verða heildarskatttekjur ríkissjóðs, bæði innflutningsgjöld, bifreiðagjöld, bensíngjöld og þungaskattur, áætlaðar nálægt 30 milljörðum kr. á þessu ári. Þetta er engin smáskattheimta.

Ég vil líka vekja athygli á því að í forsendum fjárlaga fyrir þetta ár var gert ráð fyrir að mig minnir 4% samdrætti í bifreiðainnflutningi og þar af leiðandi var líka gert ráð fyrir því að skatttekjur ríkisins af bifreiðainnflutningi drægjust saman. Þær tölur sem sýna innflutning fyrstu fjóra mánuði ársins sýna að innflutningur bifreiða hefur vaxið um nærri 50% og áætlaðar skatttekjur ríkisins gætu þess vegna numið 1,5--2 milljörðum kr. meiri á þessu ári en ráð var fyrir gert. Það er svo sem gott að afla tekna og ég geri ráð fyrir því að ýmis önnur gjöld hafi líka vaxið þar á móti en þetta leiðir hugann líka að því hvernig þessum skatttekjum er varið og hverjir í rauninni bera þar skarðan hlut frá borði.

Í neyslukönnun frá Hagstofunni árið 1997 kom fram að hver meðalfjölskylda eða íbúi á landsbyggðinni þarf að eyða 40% meira í bifreiðakostnað og rekstur bifreiðar en íbúar hér á þéttbýlissvæðunum. Hækkun gjalda og sérstaklega hækkun akstursgjalda eins og bensínskatts og þess háttar er aðeins til þess fallin að auka þennan útgjaldamun, auka mismun í skattheimtu dreifbýlisins til ríkisins. Til viðbótar hækkun skattlagningar á bifreiðanotkun er flutningur á vörum og þjónustu út um land, á hann leggst síðan virðisaukaskattur og hækkar vöruverð.

Nú má ekki skilja orð mín svo að ég vilji ekki að Vegagerðin eigi markaða tekjustofna. En ég lít aðeins á það sem lágmarkstekjustofna og það er ekkert sem bannar að ekki megi verja öðrum tekjustofnum til slíkra vegaframkvæmda því vegaframkvæmdir út um land eru eitt brýnasta hagsmunamál dreifbýlisins. En það má ekki samtímis skattleggja okkur svo að við getum ekki nýtt það.

Ég vil vekja athygli á t.d. skattheimtu sem var tekin upp á sl. vetri þar sem lagður var 100 þús. kr. skattur á vörubíla umfram akstursgjald, þ.e. vörubíla sem eru lítið notaðir. Víða í sveitum eru vörubílar notaðir til heyflutninga og fara eiginlega aldrei út á þjóðveg en þeir skulu skattlagðir um 100 þús. kr. flatt gjald. Mér finnst þetta afar óréttlátt og væri ástæða til við endurskoðun laga í vetur að breyta þessu.

Ég vil líka vekja athygli á því að skipting vegafjárins milli stofnbrauta, safnbrauta og tengivega hefur staðið óbreytt undanfarin ár og þessir svokölluðu sveitavegir hafa algerlega orðið út undan í fjármögnun varðandi endurnýjun og endurbætur. Þess vegna er engin ástæða í sjálfu sér til að draga úr fjármagni til vegagerðar en bifreiðaeign landsmanna er þegar skattlögð verulega og einn af stærstu tekjustofnum ríkisins. Það ætti því alveg að vera hægt að verja þar af auknu fjármagni til vegagerðar út um land og þetta væri kannski ein besta byggðaaðgerðin sem væri hægt að gera, þ.e. að auka fjármagnið.

Virðulegi forseti. Ég legg því áherslu á að þessu vörugjaldi verði frestað og að þingmenn suðvesturhornsins taki sig saman og slái niður þenslu suðvesturhornsins þannig að við þurfum ekki að axla hana fyrir þá því að hún flytur einungis fjármagn úr hinum dreifðu byggðum til þéttbýlisins. Þetta er skylda hv. þm. og þeir eiga að standa við hana.