Vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

Þriðjudaginn 15. júní 1999, kl. 16:04:43 (309)

1999-06-15 16:04:43# 124. lþ. 6.1 fundur 9. mál: #A vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.# frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 124. lþ.

[16:04]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Ég fór nokkuð ítarlega yfir þessi atriði áðan að ég tel. Hins vegar er það forsrh. sem er ráðherra Hagstofunnar, hvorki viðskrh. né ég. Ég held að þessi þróun sé mjög eðlileg vegna gæðabreytinga og breytinga sem verða á vörum og þjónustu, t.d. tryggingum, í tímans rás, með meiri afurðaþróun, vöruþróun margs konar o.s.frv. Það er því óhjákvæmilegt að taka tillit til þess arna og eins og ég sagði áðan er þetta hluti af alþekktu vandamáli í tengslum við að setja saman og reikna út vísitölu frá einum tíma til annars. Ég tel mjög gott mál að þetta sé komið inn í vinnuna hjá Hagstofunni eins og fram hefur komið í sambandi við tryggingarnar.

Ég get hins vegar ekki fullyrt nákvæmlega um hvernig þetta er gert á Hagstofunni. Að hluta til er hægt að gera þetta með vísindalegum aðferðum en áreiðanlega verður einhver hluti af þessu háður mati. Hver annast matið er spurning sem ég get ekki svarað. Ég treysti hins vegar Hagstofunni, hagstofustjóra og starfsmönnum hans mjög vel til að vinna þetta vel og samviskusamlega, algjörlega óháð pólitík frá einum tíma til annars. Það er auðvitað mjög mikilvægt í svona málum og við svona útreikninga.