Vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

Þriðjudaginn 15. júní 1999, kl. 16:28:50 (312)

1999-06-15 16:28:50# 124. lþ. 6.1 fundur 9. mál: #A vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.# frv., JónK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 124. lþ.

[16:28]

Jón Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. síðasti ræðumaður hefur eins og flestir aðrir ræðumenn í dag farið með himinskautum um efnahagsmál undir umræðum um frv. til laga um vörugjald af ökutækjum og hv. ræðumaður kallaði út í salinn að það væri rangt að lækka skatta.

Það vakti athygli mína því að þetta frv. er einmitt um að lækka skatta. Frv. er um að fresta hækkun bensínsgjalds sem er skattalækkun í raun. Frv. er ekki til að draga úr þenslu því að lækkun bensíngjaldsins fer auðvitað út í efnahagslífið á einhvern annan hátt.

[16:30]

Hins vegar vil ég fagna mörgum öðrum þáttum í ræðu hv. ræðumanns því að hann talaði um að nauðsynlegt væri að skila ríkissjóði með meiri afgangi. Það hefði verið rangt að skila honum ekki í fyrra með meiri afgangi. Það verða ekki vandræði að eiga við þennan hv. ræðumann þegar við í fjárln. förum að glíma við ríkisfjármáladæmið. Ég fagna sérstaklega þessum ummælum og veit að við eigum þá hauk í horni þar sem hann er þegar við förum að glíma við að koma þessu saman, því það er ekkert auðvelt mál. Ég tek undir það að við þær aðstæður sem núna eru, þó að ég sé ekki með neinar heimsendaspár í efnahagsmálum, þá er nauðsynlegt að bæta afkomu ríkissjóðs og reka hann með afgangi. Þar erum við hv. ræðumaður sammála.

Ég tel að það frv. sem er reyndar til umræðu í dag sé ekkert annað en frv. um að fresta skuldagreiðslu í vegaframkvæmdum og draga úr vegaframkvæmdum næstu árin en tala í leiðinni um einhvern vonarpening sem menn eiga von á að þenslan færi þeim í Vegasjóð. Mér finnst sá málatilbúnaður vera hæpinn.