Vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

Þriðjudaginn 15. júní 1999, kl. 16:31:16 (313)

1999-06-15 16:31:16# 124. lþ. 6.1 fundur 9. mál: #A vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.# frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 124. lþ.

[16:31]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Það skal sannarlega ekki standa á mér að reyna að leiða hv. þm. Jón Kristjánsson af þeim villigötum sem mér finnst hann stundum vera á og raunar hans ágætu flokksbræður. Ég hef lagt mig í líma við að hjálpa þeim og ég mun halda því áfram.

Ég kom hér og flutti ræðu, herra forseti, sem auðvitað tengdist þessu máli vegna þess að það er angi af miklu stærra vandamáli sem er efnahagsþróunin í íslensku samfélagi. Það er ekki hægt að halda því fram að vegna þess að ég hafi verið á móti tekjuskattslækkunum ríkisstjórnarinnar og vilji styðja þetta frv., sem ég er einn af flutningsmönnum að, að einhver þverstæða sé í því, síður en svo.

Eins og ég gat um í upphafi ræðu minnar þá er um að ræða fernt sem við í Samfylkingunni höfum lagt fram með ýmsum móti vegna þess að við viljum að ríkisstjórnin gangi fram fyrir skjöldu og dragi úr verðbólgunni til að koma í veg fyrir að verðbólguhjólið snúist hraðar og skuldir heimilanna, skuldir okkar allra aukist beinlínis af því að verið er að hækka þessi gjöld.

Er þörf á gjöldunum? Hv. þm. sagði að það eina sem hann læsi út úr þessu væri vilji þess sem hér stendur til að fresta greiðslum í Vegasjóð og þar með að koma í veg fyrir annaðhvort uppgreiðslu skulda eða vegaframkvæmdir. Þetta er mikil kórvilla hjá hv. þm. og getur hann þá verið mér sammála um að við mundum báðir styðja þetta frv. ef í ljós kemur að tekjurnar sem þegar eru komnar í Vegasjóð séu jafnvel meiri en sú lækkun sem þetta frv. mundi leiða af sér, ef í ljós kemur að tekjurnar séu meiri sem nú þegar eru komnar á fyrstu mánuðunum? Þetta er eitt af því sem ég vildi gjarnan að hv. þm. Jón Kristjánsson hefði hjálpað mér til að fá svör við á fundi fjárln. í dag en ekki á morgun. Þá hefði þessi umræða millum okkar tveggja e.t.v. verið óþörf.