Vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

Þriðjudaginn 15. júní 1999, kl. 16:33:26 (314)

1999-06-15 16:33:26# 124. lþ. 6.1 fundur 9. mál: #A vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.# frv., JónK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 124. lþ.

[16:33]

Jón Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég hygg að við fáum engin endanleg svör á morgun um tekjur Vegasjóðs þó að við fáum einhverjar vísbendingar þar um. Það er því allt of snemmt að fara að gera út á slíkt. Ég hef ekki tamið mér að gera fyrir fram út á einhverjar tekjur sem ég veit ekki hverjar verða. Það er ekki góður siður.

Hins vegar tek ég undir það að við verðum að hafa aðhald í ríkisútgjöldunum. Það er það stjórntæki sem stjórnvöld hafa í sínum höndum til að draga úr þenslu. En ég verð að viðurkenna að ég hef ekki litið á vegamálin sérstaklega í því sambandi þó að margir vilji lækna þensluna sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu, sem m.a. er í byggingum, með því að skera niður einhverja vegarspotta. Ég er ekki í þeim hópi.

Hins vegar er ég eindregið þeirrar skoðunar að sýna verði aðhald í ríkisútgjöldum og ég fagna vilja hv. þm. og efast ekkert um að við eigum um það ágætis samstarf svo sem gengur á milli stjórnar og stjórnarandstöðu. Ég hlakka til þess að vinna með honum að þessu verkefni og veit að hann er boðinn og búinn til að leiðbeina okkur framsóknarmönnum. Annað mál er hvort við tökum öllum leiðbeiningum hans, ég er ekki viss um það, en verkefnið blasir við hjá okkur.