Vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

Þriðjudaginn 15. júní 1999, kl. 16:37:31 (316)

1999-06-15 16:37:31# 124. lþ. 6.1 fundur 9. mál: #A vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.# frv., ÁGunn
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 124. lþ.

[16:37]

Árni Gunnarsson:

Herra forseti. Hér er til umræðu frv. til laga um breytingu á lögum nr. 29/1993, um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl. með síðari breytingum. Þó svo að umræðan hafi farið nokkuð um víðan völl um þetta þingmál, þá stendur eftir að verið er að leggja til að banna með ákvæði til bráðabirgða hækkanir á bensíngjaldinu á árinu 1999.

Mig langar til að vitna til greinargerðar með frv., með leyfi forseta, þar sem segir:

,,Í forsendum fjárlaga fyrir árið 1999 (þskj. 1 á 123. löggjafarþingi, bls. 239) er gert ráð fyrir hækkun bensíngjalds miðað við verðlag auk 2% viðbótarhækkunar til að standa undir auknum framkvæmdum í vegagerð fyrir 400 millj. kr. Í gildandi vegáætlun er einnig gert ráð fyrir þessari hækkun en einnig áætluð endurgreiðsla lánsfjár að fjárhæð 420 millj. kr. Með því að fresta endurgreiðslum má komast hjá því að draga úr framkvæmdum þrátt fyrir að hækkun bensíngjalds verði slegið á frest.``

Að loknum lestri þessarar tilvitnunar tel ég ljóst að þetta er tillaga um aukna skuldasöfnun eða öllu heldur tillaga um að fresta afborgunum af lánum sem eru tekin í nafni ríkissjóðs. Það hefði satt best að segja verið meiri mannsbragur að því, þar sem menn eru að skýra þetta sem þátt í aðgerðum sem þingflokkur Samfylkingarinnar leggur fram til að sporna við verðbólgu, að leggja til niðurskurð. En hér leggja menn til að slá á frest hækkun á bensíngjaldi og til þess að komast hjá því að leggja til eitthvað sem er óþægilegt í umræðunni, þá leggja menn til að fresta bara á móti að greiða af lánum sem búið er að taka. Ef þetta á að vera liður í því að draga úr verðbólgu og sporna við henni og efla og treysta stöðugleika, þá eru menn bara á villigötum, svo einfalt er það. Hér er ekki verið að leggja til neitt sem skiptir máli í sambandi við að draga úr verðbólgu. Þvert á móti. Ef menn eru að leggja til að auka skuldasöfnun, þá eru menn ekki að efla og treysta stöðugleika.