1999-06-15 17:40:29# 124. lþ. 6.2 fundur 2. mál: #A samningur milli Íslands, Noregs og Rússlands um þætti í samstarfi á sviði sjávarútvegs# þál., sjútvrh.
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 124. lþ.

[17:40]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen):

Herra forseti. Til mín hefur verið beint nokkrum spurningum. Spurningar frá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni, hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni og hv. þm. Jóhanni Ársælssyni eru nokkuð þær sömu þannig að ég ætla að reyna að svara þeim sameiginlega, auk einnar spurningar eða tveggja spurninga frá hv. þm. Svanfríði Jónasdóttur.

Í fyrsta lagi varðar það álit mitt á útgáfu reglugerðar um veiðar í Barentshafi frá 10. maí. Ég tek fullkomlega gildar þær skýringar sem hafa verið gefnar á því að nauðsynlegt hafi verið að gefa út reglugerðina til þess að hægt væri að hefja þessa vinnu og fá inn upplýsingar um veiðarnar og undirbúa þar með úthlutunina. Síðan hitt að nauðsynlegt hafi verið að hefja vinnuna svo fljótt --- um var að ræða nægjanlega fresti fyrir aðila --- til þess að koma upplýsingunum til skila og koma athugasemdum á framfæri við stjórnvöld. Ég tek þessar skýringar fullkomlega gildar varðandi það að reglugerðin var gefin út þann 10. maí.

Í öðru lagi var spurt um stöðu reglugerðarinnar gagnvart breytingum. Ég tel að staða reglugerðarinnar sé sú að henni megi breyta á sama hátt og öðrum reglugerðum. Hins vegar er spurning um hversu góð stjórnsýsla það er að breyta reglugerð sem þessari með stuttu millibili og kannski varðandi atriði sem eru álitamál í meðferð málsins en geta hins vegar varðað miklu þegar kemur að efnisatriðum reglugerðarinnar á grundvelli úthlutunar fyrir veiðunum.

Í þriðja lagi var spurt um það atriði að kvóti fylgi skipi. Þá kom réttilega fram í umræðunni að hér er um að ræða það að þegar skip hafa horfið af íslenskri skipaskrá og séu fyrri eigendur þeirra með önnur skip hafi þeir heimild til þess að færa þarna á milli. Samkvæmt þeim upplýsingum, sem ég hef um lögfræðilega stöðu þessa atriðis, stenst það fullkomlega lög okkar um þessi efni að þetta sé gert á þennan hátt. Þetta er gert til þess að þær veiðiheimildir sem þarna urðu til komi í hlut þeirra sem stóðu að veiðunum. Kannski mætti líta á það sem einhverja hvatningu til þeirra sem stunda svona frumherjaveiðar að reynt sé að liðka til fyrir þá í efni eins og þessu.

Í fjórða lagi var spurt um frumherjaréttinn eða frumherjaregluna. Henni er ekki beitt í þessu tilfelli og mér hafa verið gefnar þær skýringar á því að veiðireynslan liggi þannig í þessu tilfelli að besta veiðin og þar með verðmætasta reynslan sé á fyrstu árunum þegar frumherjarnir voru á veiðum og að frumherjaárin séu hluti af þeim árum sem heimilt er að nota til að leggja fram sem grundvöll að veiðireynslunni.

[17:45]

Þetta er hins vegar gagnstætt því sem var á Reykjaneshryggnum þar sem fyrstu árin voru ekki með þeim árum sem notuð voru til viðmiðunar við úthlutunina. Ég vil hins vegar undirstrika að þetta eru ekki skilaboð um að frumherjareglunni verði ekki beitt í framtíðinni. Ég tel hana vera mjög mikilvæga í þessu sambandi. Það væri rangt að taka þetta sem skilaboð um að hún verði ekki notuð í framtíðinni til að verðlauna þá, eins og komist var að orði, sem telja sér fært að fara í að ryðja nýjar brautir í þessum efnum.

Í fimmta lagi var spurt um endurgjaldið. Það er auðvitað umdeilt atriði og var það þegar úthafsveiðilögin voru sett. Ég tel það reyndar ekki eins mikilvægt mál og frumherjaregluna í þessu samhengi. Hins vegar tel ég alls ekki hafa verið útilokað að þessu verði beitt þegar kemur að endanlegri úthlutun. Eins og ég sagði áðan er þetta spurning um góða stjórnsýslu, hvort ekki hefði verið rétt að greina frá þessu í upphafi og hvort ekki sé á einhvern hátt komið aftan að mönnum ef farið er að setja þetta síðan inn á eftir.

Í sjötta lagi var spurt um umhverfishliðina. Þar vitnaði hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon í hv. þm. Árna Steinar Jóhannsson. Ég held að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon hafi hitt naglann á höfuðið þegar hann nefndi að þetta væri pólitísk lausn á málinu og ég held ég fari ekki lengra út í þá sálma á þessu stigi málsins.

Í sjöunda lagi var spurt um 7. gr. og hvort ég teldi hana vera ásættanlega miðað við þá aðild sem við hefðum að stjórnuninni. Já, ég tel hana ásættanlega. Þegar þessi samningur er kominn á eigum við beina hagsmuni á þessu svæði og ég tel að þá hagsmuni eigum við að verja. Við eigum ákveðna prósentu þess afla sem þarna verður leyft að veiða meðan samningurinn gildir og við eigum þá að taka þátt í að koma í veg fyrir ósamningsbundnar veiðar á svæðinu.

Í áttunda lagi var spurt um 1.700 tonnin, hvort ég teldi að þau væru hluti af samningnum. Þau eru auðvitað hluti af samningnum. Ég get alls ekki skilið það öðruvísi þar sem beinlínis er gert ráð fyrir þeim. Þau eru hins vegar sérstaks eðlis og af hálfu ráðuneytisins hefur ekki verið gengið frá því hvernig staðið verður að úthlutun þeirra. Hv. þm. Svanfríður Jónasdóttir spurði hvert markaðsvirðið væri á þessum veiðiheimildum. Enn hafa engin viðskipti átt sér stað á þessum markaði og þar með ekkert ljóst með markaðsvirðið. Ég get því ekki nefnt neinar tölur, hvorki í hærri eða lægri kantinum á því sem hún nefndi. Þar sem hér er um að ræða markaðsverð þá hlýtur það að vera eitthvað sem ræðst í viðskiptum á milli aðila.

Ef ekki verður um nein viðskipti að ræða þá er það augljóslega vegna þess að verðið sem boðið er upp á passar ekki við það sem markaðurinn er tilbúinn að greiða. Verði staðan sú munu íslensk stjórnvöld gera athugasemdir við það. (Gripið fram í.) Hvernig því verður háttað hefur ekki verið tekin ákvörðun um, en í grundvallaratriðum má segja að um sé að ræða tvær leiðir. Annars vegar þá að þeir sem þarna hafa stundað veiðar eigi hlutfallslegan rétt á því að bjóða í þessar veiðiheimildir. Hin leiðin er að öll skip sem hafa veiðileyfi eða kvóta í íslenskri fiskveiðilögsögu, þ.e. íslensk skip, geti boðið í þetta. Síðan má hugsa sér einhverjar útfærslur af þessu en í grundvallaratriðum höfum við þessar tvær leiðir. Endanleg niðurstaða í því er ekki fengin.

Grundvallaratriðið í þessu öllu saman er að okkur hefur tekist að ná samningi í deilu sem við höfum lengi átt í við þessa nágranna okkar sem við eigum sameiginlega hagsmuni með og mörg úrlausnarefni munu koma upp á borðið hjá okkur í framtíðinni. Því verður ekki neitað að þessi deila hefur haft áhrif á samskipti þjóðanna á þessu sviði. Því tel ég að mikill fengur sé að því að samkomulagi hafi verið náð. Ég fagna því að svo breið samstaða er um að samþykkja samninginn sem raunin virðist vera.

Jafnvel þótt að ég heyri að ýmislegt þar þyki gagnrýnisvert og sumt af því sem hér um ræðir sé vissulega álitamál, þá held ég að við munum ná farsælli niðurstöðu fyrir okkur og samningsaðila okkar. Það mun leiða til betra samstarfs við þá aðila í framtíðinni. Ég tel að það muni verða sjávarútvegi Íslendinga og samningsþjóða okkar til hagsbóta.