1999-06-15 17:53:58# 124. lþ. 6.2 fundur 2. mál: #A samningur milli Íslands, Noregs og Rússlands um þætti í samstarfi á sviði sjávarútvegs# þál., sjútvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 124. lþ.

[17:53]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen) (andsvar):

Herra forseti. Það er út af fyrir sig skemmtilegt að heyra skýringar hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar á því hvernig hlutirnir gangi fyrir sig í ráðuneytinu og hvernig ráðherrann fái svör, en það er ekki aðalumræðuefnið.

Hins vegar láðist mér að svara spurningu hans um blálönguna. Ég get ekki staðfest það sem hann sagði um skýrslu Hafrannsóknastofnunar, ég hef ekki lært hana alveg utan að. Ég vil hins vegar minna hann á að efnislega var samningurinn gerður áður en sú skýrsla kom út. Auðvitað er erfitt fyrir okkur, ef sú er raunin, ef farið mun í það að veiða stofn sem er ekki í nægjanlega góðu ástandi. Það er nokkuð sem við þurfum að hafa í huga þegar fram líður.

Varðandi það að umbuna þeim sem hugsanlega verða fyrir skakkaföllum út af þessum samningi þá eru ekki miklir möguleikar til þess ef ekki verður um endurgjald að ræða. Um það hefur ekki verið tekin nein ákvörðun.