1999-06-15 17:55:13# 124. lþ. 6.2 fundur 2. mál: #A samningur milli Íslands, Noregs og Rússlands um þætti í samstarfi á sviði sjávarútvegs# þál., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 124. lþ.

[17:55]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég hvet hæstv. ráðherra til þess að eyða kvöldinu í að lesa sér til um blálönguna en geri að öðru leyti engar athugasemdir um þekkingu hans á háttum þeirrar ágætu skepnu.

Hins vegar veit ég að það hlýtur að særa réttlætiskennd hæstv. ráðherra (Gripið fram í.) ef niðurstaðan verður að þeir bátar sem verða að borga kostnaðinn við stórútgerðina eiga ekki að fá neina umbun. Mér finnst það með ólíkindum ef íslenskar smáútgerðir á Vestfjörðum eða á suðvesturhluta landsins sem stundað hafa veiðar á keilu, blálöngu og löngu, sem eftir því sem ég man best eru allar kvótabundnar tegundir, eiga að greiða kostnaðinn við þetta. Mér finnst það ekki hægt. Þess vegna hvet ég hæstv. ráðherra til að finna leið til þess að bæta þar úr.