1999-06-15 17:56:42# 124. lþ. 6.2 fundur 2. mál: #A samningur milli Íslands, Noregs og Rússlands um þætti í samstarfi á sviði sjávarútvegs# þál., Frsm. minni hluta SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 6. fundur, 124. lþ.

[17:56]

Frsm. minni hluta utanrmn. (Steingrímur J. Sigfússon) (andsvar):

Herra forseti. Þetta eru nú fróðleg skoðanaskipti hér um blálönguna og mér finnst eiginlega að það þurfi að koma fram að lokum hvað tegundin heitir á latínu svo að við séum nú almennilega uppfrædd um þetta.

Ég hélt að það kæmi engum á óvart, sem fylgst hefur með sjávarútvegsmálum, að staða blálöngunnar væri alvarleg. Vitað var að stór skörð væru höggvin í þann stofn með hinum miklu veiðum á Franshól. Þar fundust mið þar sem blálangan þjappaði sé mjög saman og var veidd í miklu magni. Ýmsir höfðu þá þegar af því áhyggjur að stór skörð hlytu að verða höggvin í stofninn.

Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin en verð að segja að enn finnst mér margt óljóst um tilhögun og framkvæmd þessa máls hér heima fyrir og að hluta til í samskiptum okkar við gagnaðilana. Það er t.d. í lausu lofti hvernig farið verður með þennan kauparétt á tæpum 1.700 tonnum af þorski í rússnesku lögsögunni. Það er talsvert mál að ganga frá því. Það getur skipt miklu fyrir þær útgerðir sem ætla að nýta þann hluta veiðiheimildanna, sem eru að margra mati sýnd veiði en ekki gefin og kannski ekki mjög fýsilegt að halda alla leið norður í rússnesku lögsöguna til að taka þann hluta aflans. Þar er við ýmislegt að glíma, vetrarríki, ís, mikið af smáfiski og annað sem ætla má að frekar megi sleppa við í norsku lögsögunni. Því er alveg ljóst að sá hluti veiðiheimildanna er að ýmsu leyti síður fýsilegur en það sem taka má við Noreg.

Um hagkvæmni slíkra veiða getur til viðbótar skipt máli hvernig kaupréttinum verður háttað. Fleira í þessum dúr hefði verið æskilegt að lægi skýrar fyrir.

Varðandi frumherjaregluna finnast mér þau rök sem hér eru fram færð fyrir að nota hvorki hana né endurgjaldsákvæði vera veik. Það má kannski leiða að því rök að vegna þess að skipin sem hófu þarna veiðar, t.d. fyrsta sumarið, koma þokkalega út, þá hefði verið ástæða til að beita heimildinni vægar, þ.e. taka lægra hlutfall frá en gert var t.d. á Reykjaneshryggnum. Þá var heimildin nýtt til fulls og tekin frá 5%. Ég hefði getað fallist á rök í þá átt að við þessar aðstæður væri nóg að taka 2--3%. Ég fellst ekki á að það sé vel rökstutt og þaðan af síður skynsamlegt að nota heimildina alls ekki.