Afgreiðsla umhverfisnefndar á þáltill. um Fljótsdalsvirkjun

Miðvikudaginn 16. júní 1999, kl. 10:36:52 (339)

1999-06-16 10:36:52# 124. lþ. 7.93 fundur 68#B afgreiðsla umhverfisnefndar á þáltill. um Fljótsdalsvirkjun# (aths. um störf þingsins), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur, 124. lþ.

[10:36]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Ég tek undir með hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur um að eðlilegt er að Alþingi taki þetta mál til afgreiðslu núna og það liggur á að gera það núna. Núna eru fulltrúar erlendra stóriðjufyrirtækja staddir hér á landi og hafa verið eins og gráir kettir í landinu á sjónvarpsskjánum á undanförnum dögum að ræða þessar framkvæmdir. Það liggur á að Alþingi láti frá sér heyra ef einhver alvara er að baki yfirlýsingum hv. formanns umhvn. að hann vilji að virkjunin fari í umhverfismat og þá á hann að beita sér fyrir því. Hann er hins vegar að aðstoða hæstv. iðnrh. við að drepa þessu máli á dreif og það er algerlega óþolandi að Framsfl. og hv. formaður umhvn. komist upp með að spila pólitískt pókerspil í þessu máli.