Afgreiðsla umhverfisnefndar á þáltill. um Fljótsdalsvirkjun

Miðvikudaginn 16. júní 1999, kl. 10:38:06 (340)

1999-06-16 10:38:06# 124. lþ. 7.93 fundur 68#B afgreiðsla umhverfisnefndar á þáltill. um Fljótsdalsvirkjun# (aths. um störf þingsins), ÖS
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur, 124. lþ.

[10:38]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Það er rétt að það komi fram að þegar hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir lagði fram þá tillögu að þetta mál yrði afgreitt út úr nefndinni studdu báðir fulltrúar Samfylkingarinnar í umhvn. þá tillögu. Ég er þeirrar skoðunar að málið sé þegar nægilega þroskað til þess að hægt sé að afgreiða það.

Það liggur fyrir alveg skýr meiri hluti í nefndinni. Hv. þm. Ólafur Örn Haraldsson, formaður nefndarinnar, hefur undanfarna daga þeyst á milli fjölmiðla til að lýsa því yfir að hann sé þeirrar skoðunar að það sé fortakslaus skylda stjórnvalda að láta þetta mál í lögformlegt umhverfismat. Hv. þm. Katrín Fjeldsted hefur lýst því yfir í þessum stóli, en hún á sæti í nefndinni, að hún sé fylgjandi umhverfismati. Ekkert sem kom fram í umræðunum í morgun benti til að sá meiri hluti sem liggur í nefndinni fyrir málinu sé fallinn. Þess vegna er alveg ljóst að nefndin hlýtur fyrr en seinna að komast að þeirri niðurstöðu að tillaga af þessu tagi eigi að hljóta samþykki Alþingis þó að auðvitað sé það síðan undir Alþingi sjálfu komið hver verða afdrif tillögunnar.

Það er rétt sem hv. þm. Ögmundur Jónasson sagði að það er tímabært að þessi tillaga verði afgreidd einmitt núna. Ef við horfum á málið frá sjónarmiði ríkisstjórnarinnar mundi þetta líka hjálpa ríkisstjórninni vegna þess að því fyrr sem við tökum þessa ákvörðun því fyrr liggur fyrir niðurstaða umhverfismatsins og þar með hvort það sé siðferðilega verjandi að fara í þessa framkvæmd.

Ég vek athygli á því, herra forseti, að þessar umræður væru allar óþarfar ef hæstv. ríkisstjórn hefði hlýtt þeim óskum sem komu fram í upphafi þessa kjörtímabils þegar umræður um virkjunina komust á flug að setja það strax í lögformlegt umhverfismat, þá væri það sem sagt búið, þá lægi niðurstaðan fyrir. Það sem við í minni hlutanum erum að gera með þessari hugmynd öðrum þræði er auðvitað að ýta þessu ágreiningsmáli út af borðinu og fá niðurstöðu sem fyrst. Það er í allra þágu og ekki síst hæstv. ríkisstjórnar. Þetta mál verður aldrei afgreitt og aldrei verður farið í Fljótsdalsvirkjun nema einhver bærileg sátt náist um það með einhverju móti meðal þjóðarinnar og sú sátt mun aldrei nást nema farið verði eftir því sem meiri hluti þjóðarinnar vill, þ.e. að það verði háð lögformlegt umhverfismat á þessari framkvæmd.