Afgreiðsla umhverfisnefndar á þáltill. um Fljótsdalsvirkjun

Miðvikudaginn 16. júní 1999, kl. 10:42:57 (342)

1999-06-16 10:42:57# 124. lþ. 7.93 fundur 68#B afgreiðsla umhverfisnefndar á þáltill. um Fljótsdalsvirkjun# (aths. um störf þingsins), ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur, 124. lþ.

[10:42]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Vegna umræðna um þessa þáltill. tel ég það vera algeran fyrirslátt hjá hv. formanni umhvn. að ætla að setja þetta mál í venjulegt umsagnarferli. Málið hefur verið sent til umsagnar. Það hefur verið rætt í þinginu. Umsagnirnar liggja fyrir. Nýir þingmen þurfa að fá ráðrúm til að fá umsagnir, segir hann. Umsagnirnar geta nýir þingmenn lesið. Það hefur oft verið svo í þinginu að menn hafa lesið eldri umsagnir sem hafa komið þegar mál hafa áður verið lögð fram.

Í ljós hefur komið að lögformlegt umhverfismat mundi tefja framkvæmdir á Fljótsdalsvirkjun í tvö ár og menn nota það sem ástæðu fyrir því að ekki sé hægt að fara í umhverfismat. Gildir þá ekki máltækið því fyrr því betra? Af hverju eru menn ekki tilbúnir að samþykkja lögformlega umhverfismat, a.m.k. að afgreiða það úr nefndinni og sjá hver vilji þingsins er í málinu? Það er þó a.m.k. ekki verið að tefja það um það hálfa ár sem það tæki, þ.e. sumarið.

Ég er líka sannfærð um það að þó þingið taki ekki á málinu núna munu alþjóðasamtök taka á málinu. Þau munu ekki sætta sig við að Eyjabakkarnir verði settir undir lón án nákvæmrar athugunar.