Afgreiðsla umhverfisnefndar á þáltill. um Fljótsdalsvirkjun

Miðvikudaginn 16. júní 1999, kl. 10:47:38 (345)

1999-06-16 10:47:38# 124. lþ. 7.93 fundur 68#B afgreiðsla umhverfisnefndar á þáltill. um Fljótsdalsvirkjun# (aths. um störf þingsins), SAÞ
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur, 124. lþ.

[10:47]

Sigríður A. Þórðardóttir:

Herra forseti. Það er nokkur nýlunda á þinginu að stjórnarandstaðan krefjist þess að mál sé afgreitt úr nefnd næstum því jafnskjótt og það berst hér inn, því að venjulega hefur það verið svo að menn hafa viljað fá vandaða meðferð um málin á Alþingi. Mér þykir því heldur betur hafa orðið skipti á hlutverkum því að oftast nær hefur það verið þannig að það hafi frekar verið stjórnarliðið sem hefur á stundum a.m.k., eftir kannski mjög langa og vandaða umfjöllun, verið að taka mál úr nefndum og þá hefur stjórnarandstaðan lagst gegn því og viljað fá að skoða þau betur.

Mér þykir þetta því skjóta nokkuð skökku við og mér finnst afar eðlilegt að menn skoði þetta mál mjög vandlega í umhvn.