Endurskoðun á stjórnkerfi fiskveiða

Miðvikudaginn 16. júní 1999, kl. 11:00:20 (355)

1999-06-16 11:00:20# 124. lþ. 7.1 fundur 10. mál: #A endurskoðun á stjórnkerfi fiskveiða# fsp. (til munnl.) frá forsrh., SJS
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur, 124. lþ.

[11:00]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Vegna orðaskipta fyrirspyrjanda og hæstv. forsrh. minni ég á að það hefur iðulega verið svo að í lögbundinni endurskoðun eða endurskoðun sem mælt hefur verið fyrir sérstaklega í fiskveiðistjórnarlögunum, t.d. með bráðabirgðaákvæðum, þá hefur sjútvn. Alþingis verið ætlað hlutverk í þeirri vinnu. Það hefur t.d. oftar en einu sinni, ef ég man rétt, verið kveðið á um samráð við sjútvn. af hálfu þess aðila sem færi með hlutverk að þessu leyti og annaðist endurskoðun á fiskveiðilöggjöfinni sem Alþingi hefur ákveðið í tengslum við einhverjar aðrar breytingar. Þetta var nánast reglan en ekki undantekningin á árunum í kringum 1990 þegar menn voru að hnoðast með fiskveiðilöggjöfina þá.

Hitt er svo ljóst að ríkisstjórnin á þann kost, sem er a.m.k. næsti bær við það að fela hv. sjútvn. verkefnið, að skipa þverpólitíska nefnd með fulltrúum allra flokka. Ég held að það skipti mjög miklu máli --- og þá reynir á sáttaviljann, hinn margfræga sáttavilja frá því fyrir kosningar --- hvort ríkisstjórnin hrindir þessu verki úr vör með þeim hætti að leita eftir samstarfi við alla stjórnmálaflokka um það mál.