Starfræksla miðlægs gagnagrunns á heilbrigðissviði

Miðvikudaginn 16. júní 1999, kl. 11:16:53 (362)

1999-06-16 11:16:53# 124. lþ. 7.2 fundur 11. mál: #A starfræksla miðlægs gagnagrunns á heilbrigðissviði# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 7. fundur, 124. lþ.

[11:16]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. heilbrrh. fyrir þessi svör þótt þau hafi um margt verið óljós. Hitt er þó ljóst að ríkisstjórnin er ekki reiðubúin að slá þessu máli á frest á meðan kæra Mannverndar fyrir alþjóðastofnunum fær eðlilega afgreiðslu. Einnig kom fram í máli hæstv. ráðherra að ekki er hægt að má upplýsingar, sem fara einu sinni inn í grunninn, úr honum aftur.

Ég er ósammála hæstv. heilbrrh. um að farið sé að lögum um réttindi sjúklinga. En ekki er hægt að fara nánar út í þá sálma hér. Á hitt vil ég leggja áherslu, hæstv. forseti, að í hvert einasta hús í landinu verði borið eyðublað þar sem fólki gefst kostur á að segja sig frá heilbrigðisgrunninum. Það er mjög örlagarík ákvörðun að láta upplýsingar um sig fara inn í gagnagrunninn sem verða síðan seldar tryggingafyrirtækjum og lyfjafyrirtækjum í landinu. Ríkisstjórn sem sendir bæklinga um sjálfa sig fyrir kosningar ætti ekki að verða skotaskuld úr því að senda eyðublað af þessu tagi (Forseti hringir.) inn á hvert heimili í landinu. Þetta er eyðublað mitt (Forseti hringir.) þar sem ég segi mig (Forseti hringir.) úr gagnagrunninum.