Athugasemdir Samkeppnisstofnunar um samkeppni á fjarskiptamarkaði

Miðvikudaginn 16. júní 1999, kl. 11:47:41 (372)

1999-06-16 11:47:41# 124. lþ. 8.92 fundur 70#B Athugasemdir Samkeppnisstofnunar um samkeppni á fjarskiptamarkaði# (umræður utan dagskrár), GÁS
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 124. lþ.

[11:47]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Herra forseti. Ég get ekki neitað því að svör hæstv. ráðherra ollu mér vonbrigðum. Mér sýnist á öllu að hann ætli að feta í fótspor forvera síns um að fara í heilagt stríð við Samkeppnisstofnun. Það er vond byrjun og ég vænti þess að viðskrh., sem Samkeppnisstofnun heyrir undir þó að hún vinni auðvitað samkvæmt lögum sem við höfum sett á hinu háa Alþingi, gaumgæfi þær einkunnir sem hæstv. samgrh. fyrr og nú eru að gefa þeirri stofnun og láta í veðri vaka að hún hafi einhver ankannaleg sjónarmið að leiðarljósi þegar hún sendir frá sér úrskurði sína. Það er fráleitt að halda slíku fram.

Ég lýsi því yfir vonbrigðum mínum um að hæstv. ráðherra komi ekki hér til leiks og mæti þeim viðfangsefnum sem við blasa því að þau eru augljós hvað sem líður Samkeppnisstofnun og tilvist hennar.

Það er merkilegt ef það er orðið eingöngu fræðilegt úrlausnarefni hvort ríkissjóður eigi 10 eða 20 milljörðum meira í eignum í fyrirtækinu. Það er auðvitað langtum meira en fræðilegt viðfangsefni og hefur auðvitað áhrif á verðlagningu fyrirtækisins og rekstur þess. Einnig verður það meira en fræðilegt úrlausnarefni þegar við ætlum að leggja hér upp, eins og maður hefur fylgst með á upphafsdögum þessarar ríkisstjórnar, hvort ríkissjóður ætli að selja fyrir 20 milljarða, 30 milljarða, 40 milljarða eða 50 milljarða.

Ég hafna því slíkri nálgun og fer þess á leit við hæstv. ráðherra að hann svari því hreint og beint hvort hann ætli ekkert að gera í því að reyna að nálgast raunverulegt verðmat fyrirtækisins.

Meginkjarni málsins og pólitíkin í þessu máli er auðvitað sú, sem fram kemur hér af hálfu forræðisaðila --- sjálfstæðismanna sérstaklega --- sem á heilögum dögum tala um frjálsa samkeppni en þegar til kastanna kemur hlaupa á bak við gamalkunnan pilsfaldakapítalisma. Morgunblaðið er í þeim hópi enda vant því að vera markaðsráðandi á dagblaðamarkaði. Það eru hin merkilegu pólitísku skilaboð þessarar umræðu.

Við samfylkingarmenn viljum raunverulega virka samkeppni samkvæmt vel skilgreindum leikreglum. Það eru hin pólitísku skilaboð þessarar umræðu.