Vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

Miðvikudaginn 16. júní 1999, kl. 12:38:20 (378)

1999-06-16 12:38:20# 124. lþ. 8.31 fundur 9. mál: #A vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.# frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 124. lþ.

[12:38]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Leitt er nú að heyra að hv. þm. frábiður sér málefnalegar umræður en út af fyrir sig læt ég mér það í léttu rúmi liggja.

En hvað er boðlegur málflutningur og hvað eru boðleg vinnubrögð í Alþingi? Hér er til umræðu lítið frv. um eitt ákveðið tiltekið mál. Það er mjög einfalt að taka afstöðu til þess. Menn eru með því eða menn eru á móti því. Ég hef lýst afstöðu minni til þess máls. Ég hef hins vegar jafnframt tekið þátt í almennari umræðum um verðlags-, efnahags- og ríkisfjármál sem hefur verið farið út í á grundvelli þessa þingskjals --- þó að það sé alveg á mörkunum reyndar gagnvart þingsköpum --- og hef lýst afstöðu minni til þeirra mála.

En hér er hins vegar enginn vettvangur til að taka upp almenna umræðu um stöðu ríkisfjármála. En þarf einhverjum að koma það á óvart að breytingar séu í tekjum og gjöldum ríkisins innan ársins? Er hv. þm. búinn að gleyma því sem gerðist í heilbrrn. meðan hann var heilbrrh., að umframútgjöld urðu á þeim vettvangi? Telur hann það ný tíðindi að stofnað sé til útgjalda? Auðvitað ekki.

Það er þetta sem ég leyfi mér að kalla sýndarmennsku, herra forseti, alveg eins og þetta frv. sem er til umræðu og gengur út á það að draga til baka 0,09% af þeirri verðlagshækkun sem varð um síðustu mánaðamót. Það gengur út á að draga til baka hækkun á bensíngjaldi, tekjuöflun í ríkissjóð, sem allir í þessum sal sem hér störfuðu um síðustu áramót vissu að von var á og samþykktu að skyldi eiga sér stað.