Vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

Miðvikudaginn 16. júní 1999, kl. 12:50:03 (384)

1999-06-16 12:50:03# 124. lþ. 8.31 fundur 9. mál: #A vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.# frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 124. lþ.

[12:50]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Af minni hálfu liggur fyrir frá því í haust ósk til sveitarfélaga um samstarf á vettvangi efnahagsmála. Það samstarf er að fara í gang og við erum að undirbúa með hvaða hætti best sé að fara í það mál. Sveitarfélögin gegna náttúrlega mikilvægu hlutverki, ekki bara í sambandi við verðlagsmál heldur líka margt annað.

Ég hef ekki kvartað undan því að óskað væri eftir fundi í fjárln. --- aldrei, hvorki hér í dag né í gær. Ég hef ekki kvartað undan því. (Gripið fram í: Með því að fresta umræðum, tefja umræður?) Ég óskaði ekki eftir þeirri frestun. (Gripið fram í: Nei, þú varst að ...) Nei, nei.

Hins vegar vil ég taka fram, út af því sem þingmaðurinn sagði núna í síðasta andsvari, þegar hann gagnrýnir mig fyrir mistök í efnahagsmálum á undanförnum missirum, að hann áttar sig kannski ekki á því að þegar hann er að tala um skattalækkunina þá var hún ákveðin 1997. Látum það nú vera að núv. fjmrh. kom til starfa 1998 en það skiptir ekki öllu máli því ég studdi það mál í einu og öllu.

Hins vegar er mjög athyglisvert að hann telur að sú skattalækkun --- og hann eyddi í það löngu máli hér í gær --- hefði verið tóm vitleysa af efnahagslegum ástæðum. Auðvitað má ræða það. En það skýtur þá skökku við, ef menn eru á móti skattalækkunum í þeim tilgangi að hamla gegn þenslu, að menn skuli þá leggja til, vegna þenslu, að falla frá skattahækkun sem varð á bensíngjaldinu. Þar skýtur skökku við vegna þess að það er ekki hefðbundin aðgerð gegn þenslu að vilja lækka skatta. Því var þingmaðurinn sjálfur að halda fram varðandi hinar almennu tekjuskattslækkanir.