Vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.

Miðvikudaginn 16. júní 1999, kl. 13:24:30 (389)

1999-06-16 13:24:30# 124. lþ. 8.31 fundur 9. mál: #A vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.# frv., MF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 124. lþ.

[13:24]

Margrét Frímannsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég dreg ekki heldur í efa góðan vilja hæstv. fjmrh. til þess að starfa með nefndum þingsins. En þegar forsendur fjárlaga eru samþykktar á hv. Alþingi þá gera menn það út frá því að um ákveðna þörf sé að ræða til þess að mæta útgjaldaþörf Vegagerðar ríkisins sem auðvitað er í heildina tekið meiri en gert er ráð fyrir á þessu ári. En ef forsendurnar breytast eins mikið og kom fram í máli hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar, að þarna gæti verið um það að ræða að tekjurnar hefðu aukist um 4 milljarða en útgjöldin um 3 milljarða og þarna væri milljarður umfram og jafnframt að tekjurnar af umferðinni hefðu aukist meira en gert var ráð fyrir og, eins og bent hefur verið á, að þetta sé kannski mjög óheppilegur tími til þess að skella þessari hækkun á sem á þó ekki að gefa neinar stórar tekjur í ríkissjóð en hefur hins vegar töluverð áhrif --- þetta skiptir allt saman máli --- þá dreg ég í efa að rétt hafi verið af ríkisstjórninni að hækka núna í byrjun þessa mánaðar þegar hægt hefði verið að bíða í u.þ.b. fjórar vikur þar til þessar niðurstöður lægju allar fyrir og væru á hreinu miðað við sex mánaða uppgjör.