Stjórnarskipunarlög

Miðvikudaginn 16. júní 1999, kl. 13:58:51 (391)

1999-06-16 13:58:51# 124. lþ. 8.30 fundur 1. mál: #A stjórnarskipunarlög# frv., GÁS
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 124. lþ.

[13:58]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að hefja almenna umræðu um þetta mál en vil láta það koma fram að ég fagna því að það virðist ætla að komast í höfn. Ég tel um mikilvægt mál að ræða og að almennt sé vel að því staðið.

Ég vil enn fremur undirstrika þann skilning minn, sem fram kom í umræðu um þetta mál, að samkomulag hafi náðst á milli stjórnmálaflokkanna á síðasta kjörtímabili um öll meginatriði málsins, sem er að finna annars vegar í frv. til stjórnarskipunarlaga sem við erum að afgreiða nú og einnig í fylgifrv. til kosningalaga sem var að finna í frv. eins og það lá fyrir á síðasta kjörtímabili. Ég vil undirstrika þann skilning minn, sem hæstv. forsrh. hefur kvittað undir í umræðunni, að öll þau meginatriði sem þar er að finna haldi, með öðrum orðum að samkomulag milli flokkanna haldi í þeirri nefnd sem væntanlega verður sett á laggirnar á næstu dögum eða vikum.

Ég tel mjög mikilvægt að þetta komi fram við afgreiðslu málsins og vil ekki láta hjá líða að hafa það skýrt og greinilegt af minni hálfu.