Stjórnarskipunarlög

Miðvikudaginn 16. júní 1999, kl. 14:00:11 (392)

1999-06-16 14:00:11# 124. lþ. 8.30 fundur 1. mál: #A stjórnarskipunarlög# frv., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 124. lþ.

[14:00]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Ég vil vekja athygli á því að ekki er fyrir hendi samkomulag um þetta mál á milli allra þeirra stjórnmálaflokka sem nú eru á Alþingi Íslendinga, enda lít ég svo á að hér eigi að treysta á dómgreind og mat hvers þingmanns fyrir sig. Við eigum að ganga að þessu máli algerlega óbundin hvað þetta snertir. Þess vegna eru sett ákvæði í stjórnarskrá Íslands um að það skuli taka tvö þing til að gera breytingar á stjórnarskránni.

Ég tel að við séum að stíga mikið óheillaspor með þessum breytingum. Verið er að reisa þröskuld við dyr Alþingis. Svo kann að fara að 10 þúsund atkvæði nægi ekki til þess að koma manni á þing, að fá þingkjörinn mann á Alþingi Íslendinga. Hér tel ég allt of háar sperrur reistar. Eins og málum er komið tel ég réttast að gera landið að einu kjördæmi jafnframt því sem gerðar yrðu breytingar á stjórnsýslunni og komið á laggirnar nýju stjórnsýslustigi. Með því yrði atkvæðisrétturinn í landinu jafnaður algerlega án þess að ganga á hlut landsbyggðarinnar.

Ég lýsi andstöðu gegn þeim breytingum sem verið er að gera á stjórnarskránni og tel að þær séu ekki til heilla.