Stjórnarskipunarlög

Miðvikudaginn 16. júní 1999, kl. 14:04:46 (395)

1999-06-16 14:04:46# 124. lþ. 8.30 fundur 1. mál: #A stjórnarskipunarlög# frv., PHB (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 8. fundur, 124. lþ.

[14:04]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Fáir hv. þm. eru fullkomlega sáttir við kjördæmamálið eins og við erum að afgreiða það núna. Ég tel t.d. að ekki sé unnt að blanda saman mannréttindum og efnahagslegum og félagslegum atriðum eins og búsetu, að hver einstaklingur eigi að hafa eitt atkvæði. Hins vegar eru mjög skiptar skoðanir um þetta mál, bæði meðal þingmanna og þjóðarinnar allrar eins og komið hefur fram í umræðum og þau sjónarmið ber mér að virða þótt ég fallist ekki á þau.

Sumir telja að landsbyggðarfólk eigi að hafa meiri atkvæðisrétt vegna fjarlægðar frá stjórnsýslu m.a. Spyrja má hvort ekki megi með sömu rökum taka tillit til fátæktar og fötlunar þannig að slíkir fái aukinn atkvæðisrétt.

Frv. minnkar það mikla misvægi sem verið hefur hér á landi á atkvæðisrétti fólks og þess vegna styð ég það sem skref í átt að því sem ég tel vera mannréttindamál, þ.e. að hver fullveðja einstaklingur hafi eitt atkvæði óháð búsetu, efnahag, kynferði og stétt. Ég segi já.