Framhaldsfundir Alþingis

Þriðjudaginn 01. febrúar 2000, kl. 13:34:55 (3756)

2000-02-01 13:34:55# 125. lþ. 53.91 fundur 260#B framhaldsfundir Alþingis#, Forseti HBl
[prenta uppsett í dálka] 53. fundur, 125. lþ.

[13:34]

Forseti (Halldór Blöndal):

Ég þakka hæstv. forsrh. fyrir góðar óskir í garð okkar alþingismanna. Jafnframt vil ég nota þetta tækifæri, nú á fyrsta fundi Alþingis á þessu ári, til að óska alþingismönnum og starfsmönnum Alþingis gleðilegs árs. Ég vænti þess að störf okkar á síðari hluta þessa þings verði þjóðinni til farsældar.

Mörg mál liggja enn fyrir þinginu og fleiri eiga eftir að koma fram. Í þessu sambandi tel ég mikilvægt að fastanefndir þingsins hefji störf af fullum krafti nú að loknu þinghléi og reyni sem fyrst að ljúka afgreiðslu þeirra mála sem vísað var til þeirra fyrir þinghlé.

Þó hin eiginlegu þingstörf séu vissulega mikilvægasti þáttur þingmannsstarfsins verður ekki horft fram hjá því að samband þingmanna við kjósendur er einnig þýðingarmikill þáttur í starfi þeirra. Ég vona að hlé það sem verið hefur á reglulegum fundum Alþingis hafi nýst alþingismönnum vel til að halda fundi í kjördæmum þeirra og til annarra samskipta við kjósendur. Ég á von á því að það starf skili sér í störfum Alþingis.

Sú breyting hefur orðið á starfsáætlun Alþingis að þinghléið stóð einni viku lengur en ráðgert var. Engu að síður tel ég að Alþingi eigi að geta lokið störfum 11. maí eins og gert er ráð fyrir í starfsáætlun. Um þetta atriði vænti ég góðrar samvinnu við ríkisstjórn og þingmenn almennt.