Jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla

Þriðjudaginn 01. febrúar 2000, kl. 13:54:44 (3766)

2000-02-01 13:54:44# 125. lþ. 53.1 fundur 272. mál: #A jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla# (heildarlög) frv. 96/2000, félmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 53. fundur, 125. lþ.

[13:54]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson) (andsvar):

Herra forseti. Ég treysti mér ekki til þess að svara því af hverju stjórnandi ræður óhæfan eða miður hæfan karlmann frekar en konu. Ég vona að þau tilfelli séu færri en fleiri og að þeim fari fækkandi.

Varðandi það að hægt sé að laga jafnréttismál ofan frá eða koma jafnrétti á ofan frá er það auðvitað ekkert einfalt mál. En ég tel að það sé skylda stjórnvalda að reyna að gera það sem í þeirra valdi stendur til að lagfæra þetta. Við höfum gengið í gegnum rannsókn hjá sérfræðinganefnd Sameinuðu þjóðanna varðandi mismunun gagnvart konum og Ísland fékk í þeirri rannsókn mjög góða einkunn. Á tveimur sviðum var talið standa verulega upp á okkur Íslendinga. Í fyrsta lagi væri hér kynbundinn launamunur staðreynd. Menn geta deilt um hvað hann er mikill en hann er einhver sem ekki er hægt að skýra með öðru en kynferði. Í öðru lagi réttleysi sveitakvenna en sveitakonur á Íslandi eru réttminni en aðrar konur, t.d. varðandi atvinnuleysisbætur.