Jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla

Þriðjudaginn 01. febrúar 2000, kl. 13:58:40 (3769)

2000-02-01 13:58:40# 125. lþ. 53.1 fundur 272. mál: #A jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla# (heildarlög) frv. 96/2000, GÖ
[prenta uppsett í dálka] 53. fundur, 125. lþ.

[13:58]

Guðrún Ögmundsdóttir:

Hæstv. forseti. Það er í raun mikið gleðiefni að búið skuli vera að leggja fram að nýju frv. um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Ég vona að við náum að klára frv. í þetta sinn eftir að það er komið úr nefnd og það verði að lögum en slíkt gerðist ekki með hið fyrra frv. sem tekið var á 123. löggjafarþingi.

Síðasta frv. er frá 1991 og því má mörgu við það bæta til að það verði betra. Það fer ekki hjá því að þessi tvö frv. verði borin saman og skoðað hvað var tekið út og hverju var bætt við. Sumt er af hinu góða en annað ekki.

Mig langar aðeins að fara í gegnum frv. þó að fjallað verði um það í félmn. þegar málið fer þangað. Það er afar fróðlegt að bera frv. saman og hefur svo sem engin breyting verið gerð á markmiðssetningu laganna. Í II. kafla eru þó gerðar ýmsar breytingar, t.d. hvað varðar stjórnsýsluna. Þar er kveðið nánar á um umboð ráðherra. Vel má vera að hægt sé að styrkja stofnunina í sessi við það en við eigum kannski eftir að fá um það faglegar umræður í nefndinni. Ég mun ekki fara nánar út í það. En í 3. gr. er jafnframt hnykkt á því að þar er aftur sett inn umboð ráðherra.

Það er ýmislegt sem ég sakna úr fyrra frv. þegar verið er að tala um Skrifstofu jafnréttismála, ekki hvað síst það að í gamla frv. var skrifstofunni gefið færi á því að leita sátta milli einstaklinga eða hópa annars vegar og fyrirtækja eða stofnana hins vegar í ágreiningsmálum sem skrifstofunni bárust og vörðuðu ákvæði laganna. Það er ekki inni núna og ég held að það sé í rauninni mjög mikilvægt að það komi inn aftur, að ekki sé alltaf valin dómstólaleiðin þannig að við höfum þarna þessa möguleika. Ég tel það mjög brýnt og ég legg til að við skoðum það í nefndinni.

Þar sem talað er um að opinberum stofnunum, atvinnurekendum og félagasamtökum sé skylt að veita Skrifstofu jafnréttismála hvers konar almennar upplýsingar sem nauðsynlegar eru starfsemi hennar, er mjög gott. Þetta er mjög brýnt og líka mjög mikilvægt að skrifstofan og jafnvel Jafnréttisráð geti gripið inn í mál og haft frumkvæði að málum.

Varðandi 4. gr. var kærunefndin áður úrskurðarnefnd en er núna kærunefnd. Þar komum við aftur að því sem er nýmæli að aðilar geti lagt ágreining sinn fyrir dómstóla með venjulegum hætti. Nú getur nefndin ekki lengur gert það og ég held að það sé líka mikilvægt að kærunefndin hafi þetta umboð til þess að fara í prófmál sem þarf að skoða og maður vill láta reyna á. Mér finnst því að við ættum að skoða það líka. Fjöldi mála er ef til vill kominn í umræðuna og þau mál loksins farin að bíta, þá eru þau kannski tekin út. Mér finnst því að við ættum að skoða það hvort við eigum að reyna að setja þetta einhvern veginn inn þannig að það sé ekki bara aðili heldur bæði nefndin og skrifstofan sem geti rannsakað mál.

Hins vegar er skrifstofunni gefið umboð í 5. gr., þ.e. hún getur beðið um að sérstök erindi séu tekin þar til umfjöllunar og það er vel.

Ef við tökum 6. gr., um upplýsingaöflun kærunefndar jafnréttismála, þá var 6. gr. tekin út í gamla frv. um viðmið við mat á hæfni. Í þeirri grein er sagt um mat á því hvort ákvæði laganna sem hafi verið brotin, að taka skuli mið af menntun, starfsreynslu, sérþekkingu eða öðrum hæfileikum sem krafa er gerð um í viðkomandi starfi samkvæmt lögum eða reglugerðum eða telja verður annars að komi að gagni í starfinu. Þetta ákvæði er tekið út. Það er spurning af hverju það var tekið út. Hverjir vildu það? Mig minnir endilega að það hafi komið frá umboðsmanni Alþingis og að þetta er kannski eitt af því sem þarf að liggja til grundvallar svo við vitum í rauninni á hvaða forsendum við eigum að fjalla um málin.

Ef við skoðum Jafnréttisráð, þá er alveg kúvent þar. Í fyrra frv. er sú hugmynd að hafa Jafnréttisráð og jafnréttisþing saman þannig að við sæjum þetta mjög svipað og Náttúruverndarráð er skipulagt núna með náttúruverndarþinginu, þaðan hefðu þá aðilar komið inn í Jafnréttisráðið af jafnréttisþingi. Það er horfið frá því og búið að tengja aftur inn vinnumarkaðinn, þannig að við erum komin aftur í það eins og þetta er núna, enda má í rauninni segja sem svo að við þurfum að ákveða í hvaða átt við viljum fara. Það sem hefur verið að gerast á Norðurlöndum er að verið er að leggja niður jafnréttisráðin þar í þeirri mynd sem þau eru núna og kannski meira farið að skoða þetta með þeim grasrótarhreyfingum og öðrum sem koma að þessum málum. Það hefur því verið horfið frá þeirri hugmynd í fyrri lögunum og er aftur þetta sama, þ.e. tilnefning frá ýmsum aðilum. Mér finnst mjög áhugavert að þarna eru Kvenfélagasambandið og Kvenréttindafélagið sem munu skiptast á um einn fulltrúa sem getur verið ár í senn en jafnframt á auðvitað að gera það með aðilum vinnumarkaðarins. Þarna er er BSRB og ASÍ en ég vildi gjarnan sjá BHMR líka þannig að þessi þrjú félög gætu róterað fulltrúum. Þetta er eitt sem mér finnst að við ættum að skoða í félmn. Samtök atvinnulífsins eru alveg með á hreinu að þau eru með fulltrúa sinn alveg einan og óskertan og þurfa ekki að skipta mikið út.

Hlutverk Jafnréttisráðs breytist líka. Búið er að skera dálítið af því í 8. gr. nú miðað við það sem hún var áður. Ef Jafnréttisráð á ekki að deyja út þá held ég að mjög mikilvægt sé að við gefum því ákveðið frumkvæði í tímabundnum aðgerðum og það verður að gera í þessum lögum til að ráðið geti nýtt sér það. Einnig það, eins og segir í fyrra frv., að Jafnréttisráð sé stjórnvöldum, stofnunum og félagasamtökum til ráðgjafar. Auðvitað er núna verið að styrkja skrifstofuna en það verður jafnframt að gefa Jafnréttisráðinu meira hlutverk. Spurning er um að hún geri ákveðna framkvæmdaáætlun þannig að allir þættir vinni saman, líka vegna þess að jafnréttisáætlanir, jafnréttisfulltrúarnir og jafnréttisráðgjafar eru auðvitað nýmæli. Það er því mjög mikilvægt að þetta haldist svolítið í hendur.

Mig langar að fara beint í sveitarfélögin. Allar stofnanir sveitarfélaga hafa nú í æ ríkari mæli verið að gera jafnréttisáætlanir fyrir hvern málaflokk fyrir sig og það er mjög mikilvægt að reyna að nýta þá reynslu sem þar er búið að vinna þannig að hvorki ráðuneyti né ríkisstofnanir, og það væri mjög áhugavert að hafa bankastofnanir sérstaklega inni, nýti sér í rauninni þau módel sem búið er að vinna svo ekki sé alltaf verið að finna upp hjólið. Gerðar séu áætlanir sem hægt væri að fylgjast með og fara yfir hvað gengi eftir og hvernig við gætum sett þær í annan farveg ef við vildum sjá fleiri framkvæmdir.

Það er líka mjög mikilvægt að þeir jafnréttisfulltrúar sem ráðuneytin eru með komi þá líka með skýrslu til þingsins. Það er eitt af því sem mér fyndist að mætti bæta þarna við.

Í sambandi við vinnumarkaðinn og jafnréttisáætlanirnar er mikilvægt að menn reyni að nýta sér það sem fyrir er, eins og ég sagði áðan, og að enginn þurfi að vera hræddur um að þetta séu ómöguleg verkefni því að þetta er vel hægt og hefur gengið mjög vel.

Mikið er af góðum nýmælum hérna t.d. í 16. gr., samræming fjölskyldu- og atvinnulífs. Þetta hefur verið í umræðunni á síðustu árum og við viljum einhvern veginn gleyma að ekki sé búið að lögfesta þetta allt saman þó að það sé komið inn í ýmsar framkvæmdaáætlanir og annað. Það er mjög mikilvægt að jafnréttisáætlanir stofnana og fyrirtækja taki einmitt á því hvernig þau vilja sjá þessa hluti í framkvæmd þannig að hægt sé að fylgjast með og enginn sé banginn.

Í 17. gr. er mjög ánægjulegt nýmæli varðandi kynferðislega áreitni. Hún er sá raunveruleiki sem við búum við, bæði konur og karlar. Þó að konur séu í stærsta hópnum sem verður fyrir kynferðislegri áreitni, þá á það líka við um karlmenn. Það sem mætti koma þarna inn er spurning um --- ég veit ekki hvort það ætti kannski að vera í lögunum --- að það komi inn á starfssvið skrifstofunnar að hún verði með leiðbeiningar þegar svona mál koma upp og hún geti jafnframt verið með ráðgjöf þegar svo ber við. Það ætti því ekki að vera nein hindrun heldur fyrst og fremst styrking.

Í 19. gr., um menntun og skólastarf, er mjög mikilvægt að jafnrétti sé eðlilegur hluti af bæði kennslu og öðru, og að strákar og stelpur geti séð sig sem jafningja og jafnhæfa.

20. gr., þátttaka í nefndum og ráðum á vegum hins opinbera, er nýmæli og þetta á einungis við um tilnefningar. Mér finnst það spurning hvort þetta eigi ekki líka við um skipan í nefndir. Af hverju erum við bara með tilnefningar þarna og það er spurning hvort ekki eigi að víkka þetta út. Við þekkjum vel að nágrannaþjóðir hafa verið með átök og annað í slíkum málum.

Það sem fram kemur í 21. gr. og vísar líka beint í fyrstu markmiðsgreinina, þ.e. að greina tölfræðiupplýsingar eftir kyni og efla rannsóknir í kynjafræðum, er líka mjög ánægjulegt og mikilvægt nýmæli. Það er mjög mikilvægt að við getum lesið í þróun og þjónustu varðandi ýmsa hópa í samfélaginu, hvernig samsetningin er og hvernig við getum í rauninni lesið í samfélagið með því að leggja áherslu á þetta.

Ég fagna því að þetta frv. skuli vera komið fram. Það eru ýmsar athugasemdir en þær munu þá koma fram í félmn. en grunnurinn er mjög góður.