Jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla

Þriðjudaginn 01. febrúar 2000, kl. 14:11:54 (3770)

2000-02-01 14:11:54# 125. lþ. 53.1 fundur 272. mál: #A jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla# (heildarlög) frv. 96/2000, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 53. fundur, 125. lþ.

[14:11]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Hv. 11. þm. Reykv. ræddi mikið um tæknilega útfærslu frv., hvernig tilnefnt er í stjórnir og ráð. Hún talaði um Jafnréttisráð, jafnréttisfulltrúa, jafnréttisráðgjafa, jafnréttisáætlun, jafnréttisnefndir sveitarfélaga, hv. þm. ræddi sem sagt almennt um jafnréttisiðnaðinn eins og hann leggur sig. Svo ræddi hún alltaf um þessa hausatalningu sem menn eru svo hrifnir af, að jafnmargir hausar ættu að vera af hvoru kyni. En hv. þm. ræddi ekkert um til hvers frv. væri. Ég ætla að spyrja hv. þm.: Telur hv. þm. að þessi lög muni laga misrétti milli karla og kvenna? Telur hv. þm. að launamisrétti minnki eða jafnvel hverfi? Telur hv. þm., sem er meira um vert, að konur verði ráðnar í leiðandi stöður? Það er miklu meira mál en að koma á jafnrétti karla og kvenna í lágt launuðum stöðum. Fá konur yfirleitt tækifæri til þess að verða stjórnendur og leiðandi? Trúir hv. þm. því?